Vilhelm Þorsteinsson EA-11 kom til heimahafnar á Akureyri nú um helgina en tæpir tveir mánuðir eru síðan skipið lagði upp í sína fyrstu veiðiferð. Á þessum tíma hefur skipið verið á kolmunnaveiðum við Færeyjar og suð-vestur af Íslandi og landað í Færeyjum, Grindavík og Neskaupstað. Sturla Einarsson annar af skipstjórum Vilhelms Þorsteinssonar segir að veiðarnar hafi gengið samkvæmt áætlun. "Þetta er mjög gott sjóskip og engir byrjunarörðugleikar hafa komið upp sem orð er á gerandi" sagði Sturla.
Vilhelm Þorsteinsson verður á Akureyri á meðan að lokafrágangur á vinnslulínum fer fram. Í næstu veiðiferðum verður lögð áhersla á að fullvinna sem mestan hluta aflans um borð. Aðspurður að lokum hvernig væri að koma þessu mikla skipi inn í Grindavíkurhöfn sagði Sturla og brosti við að það væri svipuð tilfinning og að aka stórum fjallajeppa inn um litlar bílskúrsdyr. "Það gengur en verður að gerast hægt og yfirvegað" sagði Sturla.