Vel heppnaðri síldarvertíð lokið

Baldvin Þorsteinsson EA 10 og Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sigldu samferða inn Eyjafjörð í morgun
Mynd…
Baldvin Þorsteinsson EA 10 og
Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sigldu samferða inn Eyjafjörð í morgun

Mynd: Þórhallur Jónsson
- Söluverðmæti afurða fjölveiðiskipa Samherja hf.á síldarvertíðinni um tveir milljarðar króna

Fjölveiðiskip Samherja hf., Baldvin Þorsteinsson EA 10 og Vilhelm Þorsteinsson EA 11, komu með fullfermi til Akureyrar í dag að lokinni vel heppnaðri síldarvertíð, en bæði skipin eru nú búin með aflaheimildir sínar úr norsk-íslenska síldarstofninum.
Frá því síldarvertíðin hófst þann 10. maí sl. hafa skipin veitt samanlagt um 39.000 tonn af síld úr sjó. Úr aflanum hafa áhafnir skipanna unnið tæplega 20.000 tonn af frystum afurðum og nemur söluverðmæti þeirra nálægt tveimur milljörðum króna.

 

Megnið af síldinni var veitt utan íslenskrar fiskveiðilögsögu og allur aflinn unninn og frystur um borð. Áhafnir skipanna voru að jafnaði um borð í 30 til 35 daga í senn og fóru áhafnaskipti fram í Noregi, en um þrír mánuðir eru síðan skipin komu síðast til hafnar á Íslandi.

Fimm ár frá komu Vilhelms Þorsteinssonar EA 11
Fimm ár eru nú liðin frá því að Vilhelm Þorsteinsson EA 11 kom fyrst til heimahafnar á Akureyri. Á þessum fimm árum hefur skipið veitt um 250.000 tonn af fiski og er uppistaða þess afla síld, loðna og kolmunni. Aflaverðmæti skipsins nemur um 6,5 milljörðum króna á þessu árabili, sem hlýtur að teljast einstaklega góður árangur.

Í tilefni af heimkomu skipanna tveggja, lokum síldarvertíðar og því að 5 ár eru nú liðin frá því að Vilhelm EA kom fyrst til heimahafnar, bauð Samherji áhöfnum skipanna tveggja og mökum þeirra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, verðandi sjávarútvegsráðherra, bæjarstjóranum á Akureyri og mörgum öðrum góðum gestum í siglingu með skipunum tveimur um Eyjafjörð í dag. Meðan á siglingu stendur var snæddur hádegisverður um borð.

Gert er ráð fyrir því að skipin haldi til veiða á ný á morgun.