Vel heppnuð árshátíð landvinnslu Samherja hf

Laugardagskvöldið 27. mars sl. var haldin sameiginleg árshátíð allra starfsstöðva Samherja í landi í KA-heimilinu á Akureyri. Um 540 manns voru samankomin til að skemmta sér og tókst hátíðin með eindæmum vel.
0403_arshat_1908_heimas
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, tók á móti gestum við innganginn.
0403_arshatid_1926_heimas
Sett var upp afar skemmtileg sýning með myndum frá ýmsum viðburðum í sögu fyrirtækisins sem og af starfsfólkinu sjálfu. Meðan fordrykknum voru gerð skil var upplagt að skoða sýninguna.
0403_arshatid_1969_heimas
Starfsmenn Bautans sáu um matseldina í veislunni og fóru létt með að breyta íþróttahúsi KA í glæsilegan veislusal.
0403_arshatid_2058_heimas
Fyrirmyndarstarfsmenn Samherja 2004!

Margir gestanna lögðu á sig langa ferð til hátíðarhaldanna eins og Grindvíkingar og Stöðfirðingar sem fylltu hótel bæjarins í tvær nætur. Dagskráin var fjölbreytt og veislustjórinn, Örn Árnason, stýrði af alkunnum skemmtilegheitum.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf. ávarpaði samkomuna, bauð alla velkomna og lýsti yfir ánægju sinni með hve margir væru saman komnir því nauðsynlegt væri að rækta félagslega og mannlega þáttinn. Hann bauð einnig velkomna aðra gesti sem voru sá hluti áhafnar Baldvins Þorsteinssonar EA sem var á strandstað allan tímann, Guðmundur Hjálmarsson og einnig fulltrúar frá þeim sveitarfélögum sem hýsa starfsemi Samherja, þ.e. bæjarstjórarnir á Akureyri, í Dalvíkurbyggð, Grindavík, Austurbyggð og Fjarðabyggð ásamt mökum. Þorsteinn stiklaði á stóru og kom m.a.inn á strand og björgun Baldvins Þorsteinssonar EA. Þorsteinn gat þess til gamans að hann hafði lést um 4 kíló þessa 8 daga á sandinum.

Guðmundur Hjálmarsson steig í pontu og flutti stórskemmtilega ræðu þar sem hann lýsti upplifun sinni á sandinum bæði í bundnu og óbundnu máli. Dalvískar dægurflugur sveimuðu um salinn og söngsveitin Þrjú á sviði sló í gegn. Ennfremur tróðu félagarnir Karl Ágúst Úlfsson og Örn Árnason upp með sprell og spé eins og þeim einum er lagið.

Undir lok skemmtidagskrár var tilkynnt um val á fyrirmyndarstarfsmanni hverrar starfsstöðvar. Valið hafði verið erfitt hjá yfirmönnum og brugðið var á það ráð að draga úr nöfnum nokkurra starfsmanna sem verið höfðu til fyrirmyndar og voru eftirtaldir heiðraðir með ferðaávísun:

Grindavík: Dagfríður Pétursdóttir
Dalvík: Jónína Ketilsdóttir
Stöðvarfjörður: Piotr Marcjaniak (Pétur)
Akureyri: Jóhanna E. Birgisdóttir
Strýta: Dagný Bjarkadóttir

Að dagskrá lokinni var stiginn dans við undirleik hinnar stórgóðu hljómsveitar Saga Class.

 

 

 

 

 

0403_arshatid_2011_heimas
Starfsmenn í starfsmannafélaginu Fjörfiski á Dalvík sungu nokkur lög úr sýningu sinni Dægurflugur undir stjórn Arnars Símonarsonar við mikinn fögnuð áhorfenda.
0403_arshatid_2051_heimas
Söngsveitin Þrjú á sviði stýrði fjöldasöng. Þessi stórgóða söngsveit starfar öll á aðalskrifstofu Samherja og hefur örugglega ekki sungið sitt síðasta!