Velkomnir til Akureyrar

Falleg sjón að sjá, siginn að framan á lygnum sjó
Falleg sjón að sjá, siginn að framan á lygnum sjó

Skipverjar á fjölveiðiskipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 fengu góðar móttökur er skipið lagðist að bryggju á Akureyri um hádegið í dag. Á þeim 100 dögum sem liðnir eru frá 7.júní, er skipið lagði síðast upp frá Akureyri, hefur verið landað úr skipinu nær 8.000 tonnum af frystum síldarafurðum, að verðmæti tæplega 500 milljónum króna.
Þar af veiddi skipið tæplega 15.000 tonn úr Norsk íslenska síldarstofninum og núna rúm 1000 tonn úr íslensku sumargotssíldinni.
Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri sá ástæðu til að koma og taka á móti skipinu. Hann færði skipverjum veglega marsipantertu og óskaðu þeim til hamingju með árangurinn. Kristján Þór komst svo að orði við þetta tækifæri að velgengni skipsins væri hagur allra bæjarbúa sem og þjóðfélagsins alls. 

Vilhelm Þorsteinsson landar úr þessari veiðiferð um 540 tonnum af frosnum síldarflökum og 100 tonnum í bræðslu. Síldin sem veiddist á Halamiðum á 5 dögum var mjög stór, á bilinu 350-410 gr. Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri segir að gert sé ráð fyrir að skipið verði á síldveiðum til áramóta en er hóflega bjartsýnn á framhaldið þó að vel hafi farið af stað.
ea11_043h
Kristján Þ. Júlíusson bæjarstjóri afhendir skipstjórunum tveimur, Arngrími Brynjólfssyni t.v. og Guðmundi Þ. Jónssyni, tertu.

Nú í september eru 4 ár síðan Vilhelm Þorsteinsson EA kom nýr til Akureyrar og var markmiðið að þróa vinnslu á uppsjávarfiski um borð í skipinu. Að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja hf. var þar verið að fara inn á nýjar brautir og hefur eins og oft í slíkum verkefnum verið erfitt. En með samstilltu átaki áhafnar og útgerðar hefur tekist að komast yfir erfiðleikana. "Á þessum tímamótum geta menn horft stoltir til baka. Í ár hefur Vilhelm Þorsteinsson framleitt tæp 16 þúsund tonn af frystum afurðum um borð og markmiðið, að auka verðmæti uppsjávarafla verulega, hefur náðst" segir Þorsteinn Már.