Fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík verður opið almenningi á sumardaginn fyrsta frá klukkan 09:00 til 13:00. Sigurður Jörgen Óskarsson vinnslustjóri segir tilhlökkun að sýna eitt fullkomnasta vinnsluhús heimsins í bolfiski enda hafi húsið verið meira og minna lokað öðrum en starfsfólki frá því vinnsla hófst í ágúst 2020.
Harðar sóttvarnaraðgerðir
Vinnsla verður í húsinu sumardaginn fyrsta, þannig að almenningi gefst einstakt tækifæri til að sjá þetta fullkomna vinnsluhús, sem er um 9.000 fermetrar og kostaði um sjö milljarða króna. Hönnun og framkvæmdir stóðu yfir í um fjögur ár en þegar vinnsla hófst geisaði heimsfaraldur og grípa þurfti til strangra sóttvarnaraðgerða. Sigurður Jörgen Óskarsson vinnslustjóri segir að á ýmsu hafi gengið, eðli málsins samkvæmt.
Lífið að færast í réttar skorður
„Þetta var síður en svo einfalt en með samstilltu átaki allra hafðist þetta, líklega var það góður og hnitmiðaður undirbúningur á öllum sviðum sem skipti sköpum. Á síðasta ári voru unnin um 17 þúsund tonn af fiski í húsinu, sem er framleiðslumet í fiskvinnslu á Dalvík og það eitt segir sína sögu. Í mínum huga er þessi viðburður nokkuð skýrt merki um að daglegt líf okkar sé að færast í réttar skorður að loknum heimsfaraldri. Við sýnum húsið og allan búnaðinn með stolti og bjóðum alla velkomna til okkar,“ segir Sigurður Jörgen Óskarsson vinnslustjóri.
Gangið í bæinn
Eins og fyrr segir verður fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík opið almenningi á sumardaginn fyrsta, frá klukkan 09:00 – 13:00 - Gjörið svo vel, gangið í bæinn !