Nýtt fjölveiðiskip Samherja hf., Vilhelm Þorsteinsson EA, gefur félaginu aukna möguleika í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar, framkvæmdastjóra félagsins, en skipið kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Akureyri á sunnudag.
Skipið er burðarmikið og gefur því aukna möguleika á að fara með loðnu-, síldar- og kolmunnaafla til vinnslu hjá fiskimjölsverksmiðju Samherja í Grindavík. Skipið er búið bæði til nóta- og flottrollsveiða og um borð er fullkominn búnaður til frystingar og vinnslu á bolfiski, síld, loðnu og kolmunna. "Við vildum búa til skip sem væri jafnvígt á bæði nótaveiðar og bolfiskveiðar með troll. Ég tel að það hafi tekist mjög vel. Það er geysilega gaman að sjá skipið loksins í höfn. Þetta er búin að vera löng meðganga, enda liðin tvö ár frá því ákvörðun var tekin um smíði skipsins."
Þorsteinn segir að nýja skipið endurspegli ekki beinlínis stöðu íslensks sjávarútvegs í dag. Greinin hafi átt í töluverðum erfiðleikum að undanförnu, m.a. vegna hækkandi olíuverðs. Hann segir að hinsvegar sé endurnýjun flotans nauðsynleg. Þannig þurfi öflug skip til að afla Íslendingum veiðireynslu, meðal annars í kolmunna. "Það er mín skoðun að hér á landi eigi að gera út blandaðan flota. Kolmunnaveiðarnar krefjast til dæmis öflugri skipa en við höfum yfir að ráða í dag. Við höfum séð það til dæmis í úthafskarfaveiðunum. Þar þurfti öflug skip og það er kannski ástæðan fyrir því að við náðum þeirri reynslu sem við höfum. Þar lögðu menn mikið á sig til að ná reynslu sem við höfum í dag og það kom síðan öllum til góða þegar kvótanum var úthlutað. Ég á von á því að úthlutað verði kvóta úr kolmunnastofninum eftir næsta ár. Ég tel nauðsynlegt að það takist því að það er verið að ofveiða stofninn í dag."
Fyrsta verkefni nýja skipins verður einmitt að halda á kolmunnaveiðar og síðan er ætlunin að fara á síld að sögn Þorsteins. Hann segir að væntanlega verði aflaheimildir færðar af Þorsteini EA og fleiri skipum á nýja skipið en Þorsteinn EA var eins og kunnugt er seldur nýverið til dótturfélags Samherja í Þýskalandi, DFFU.
Neikvæð umræða
Þorsteinn Már sagði í ávarpi sínu á sunnudag að afhending skipsins væri stór dagur í sögu félagsins en jafnframt stór dagur í sögu íslensks sjávarútvegs. "Það er staðreynd að þrátt fyrir þær stórstígu breytingar sem átt hafa sér stað í íslensku atvinnulífi á undanförnum árum er sjávarútvegurinn enn sem fyrr undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar og verður það væntanlega áfram um langa hríð. Í þessari atvinnugrein, eins og öðrum, er nauðsynlegt að endurnýja atvinnutækin og laga sig að breyttum aðstæðum. Við hjá Samherja teljum okkur vera að gera hvort tveggja með því að hafa lagt í smíði þessa mikla og glæsilega skips, Vilhelms Þorsteinssonar EA. Við vonum og trúum því að þessi mikla fjárfesting muni reynast félaginu farsæl."
Þorsteinn sagði að umræðan um sjávarútveg hér á landi væri oft atvinnugreininni andsnúin. Á sama tíma hefðu hinsvegar margar aðrar þjóðir horft til Íslands sem fyrirmyndar um hvernig megi stýra sókninni í auðlindir sjávarins svo vel sé. "Við hjá Samherja höfum ávallt kappkostað að sýna auðlindinni þá virðingu sem hún á skilið. Það höfum við gert með því að umgangast hana af alúð og kappkosta að nýta sem best það hráefni sem þaðan kemur. Með vöruvöndun, ströngu gæðaeftirliti og hnitmiðuðu markaðsstarfi höfum við freistað þess að fá sem hæst verð fyrir þau verðmæti sem auðlindin hefur að geyma. Af þessu erum við hjá Samherja stolt og munum halda ótrauð áfram á sömu braut. Við trúum því og treystum að stjórnvöld beri gæfu til að hlúa að sjávarútveginum og skapa fyrirtækjum innan greinarinnar heilbrigð skilyrði til starfa og vonandi að vaxa og dafna. Í þeirri trú lögðum við í það mikla verk að láta smíða þetta mikla skip, skip sem færir nýjar víddir inn í íslenskan sjávarútveg og gerir okkur kleift að auka verðmæti sjávaraflans enn frekar með aukinni vinnslu um borð.
Nafn skipsins, Vilhelm Þorsteinsson, finnst mér sérlega vel við hæfi. Vilhelm Þorsteinsson átti mjög farsælan feril í íslenskum sjávarútvegi og markaði sín spor í útgerðarsögu Akureyrar. Staða útgerðar á Akureyri væri ekki sú sem hún er í dag ef Útgerðarfélagi Akureyringa hefði ekki verið stýrt svo farsællega sem raun ber vitni um langt árabil af þeim Vilhelm Þorsteinssyni og Gísla Konráðssyni. Akureyringar minnast Vilhelms sem fengsæls skipstjóra, farsæls stjórnanda og góðs manns. Það er von mín að nýja skipið eigi eftir að reynast verðugur merkisberi um störf Vilhelms í íslenskum sjávarútvegi," sagði Þorsteinn Már.
Ágjöf öfundarmanna
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, lýsti fyrir hönd bæjarstjórnar Akureyrar sérstakri ánægju yfir komu nýja skipsins í ávarpi sínu á sunnudag. "Í rótgrónum útgerðarbæ eins og Akureyri er koma nýs skips merkisviðburður og til vitnis um gott gengi viðkomandi fyrirtækis og undirstrikar um leið styrk í einni af undirstöðuatvinnugrein byggðarlagsins. Því miður hefur afkoma íslenskrar útgerðar hin síðari ár verið með þeim hætti að sífellt hefur verið bætt í gamla skrokka skipa í stað þess að regluleg endurnýjun flotans eigi sér stað. Það eru til dæmis átta ár frá því Akureyringar fögnuðu nýrri smíði en þá kom Baldvin Þorsteinsson EA til heimahafnar. Þar á undan var Oddeyrin EA sjósett hér í slippnum fyrir fjórtán árum."
Kristján sagði fiskiskip Samherja og nöfn þeirra sem væru órjúfanlega tengd útgerðarsögu Akureyrar, bera vitni um dugnað, ræktarsemi og elju stjórnenda og starfsfólks fyrirtækisins. Fyrirtækið hafi verið byggt upp í þá stærð á örfáum árum, að fá eða nokkur útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki, við Norður-Atlantshaf, búi yfir sömu getu. "Það er bæjarfélagi eins og Akureyri ákaflega mikils virði og ber að meta. Ekki hefur farið hjá því að þessum mikla og öra vexti Samherja hafi fylgt nokkrir vaxtarverkir og stjórnendur fyrirtækisins og starfsfólk allt hefur mátt þola nokkra ágjöf öfundarmanna sem ekki hafa búið yfir sömu getu. Sem betur fer hefur sá púðrandi hrotið af fyrirtækinu líkt og vatni sé stökkt á gæs og þetta nýja skip, Vilhelm Þorsteinsson, er glæsilegur vitnisburður um metnað og áræðni fyrirtækisins. Samherjamenn hafa aldrei farið með löndum, ætíð hefur kúrsinn verið settur skemmstu leið á veiðislóð, hvort heldur á sjó eða á landi. Vonandi verður því verklagi haldið um alla framtíð," sagði Kristján.