Vilhelm Þorsteinsson EA 11 kom í land með fullfermi af frystum síldarflökum í gær og lauk þar með síðustu veiðiferð þessa árs. Áhöfnin á Vilhelm Þorsteinssyni er búin að veiða um 50.000 tonn og skilar þjóðarbúinu um 3,3 milljörðum kr. á þessu ári, sem er met í aflaverðmæti.
Skipstjórinn Guðmundur Þ. Jónsson hafði fleiri ástæður til að fagna en hann varð fimmtugur á sunnudaginn. Veglega var tekið á móti Guðmundi og áhöfn hans er skipið lagði að bryggju á Akureyri í gær, með dýrindis afmælistertum og að sjálfsögðu var afmælissöngurinn sunginn skipstjóranum til heiðurs.
Vilhelm Þorsteinsson veiðir uppsjávarfisk, síld, kolmunna, makríl og loðnu. Skipið er að koma frá veiðum við Norður-Noreg með fullt skip, 570-580 tonn af síldarflökum sem fara á markað í Póllandi og Frakklandi. Það er allt unnið um borð og 90-95% af því fer til manneldis. Í áhöfn eru 24 skipverjar hverju sinni en um 40 sjómenn skiptast á um að vera um borð. Vilhelm heldur aftur af stað 2. janúar á loðnuveiðar.