Starfsmannafélag Samherja á Dalvík, Fjörfiskur, hélt árlegt villibráðarkvöld sl. laugardagskvöld, þar sem starfsfólk og gestir gæddu sér á íslenskri villibráð í veglega skreyttum matsal félagsins. Þetta er í fjórða sinn sem efnt er til slíkrar matarveislu.
Bræðurnir toppa sig á hverju ári
Ragnheiður Rut Friðgeirsdóttir formaður Fjörfisks segir að villibráðakvöldið hafi verið upphafið að vetrardagskrá starfsmannafélagsins.
„Bræðurnir Sveinn og Bjarni Haraldssynir hafa öll árin séð um eldamennskuna á villibráðarkvöldinu með aðstoð fólks í Fjörfiski. Sveinn er í þrifasveit vinnslunnar hérna á Dalvík en Bjarni býr á Egilsstöðum og kemur hingað norður sérstaklega til að útbúa réttina. Við erum búin að panta þá aftur á næsta ári því satt best að segja toppa þeir sig á hverju ári, enda algjörir snillingar í eldhúsinu,“ segir Ragnheiður Rut, sem átti einmitt afmæli sl. laugardag og auðvitað sungu gestirnir afmælissönginn fyrir afmælisbarnið.
Blómlegt félagsstarf
Ragnheiður Rut segir fjölmargt á dagskránni hjá starfsmannafélaginu. „Já, heldur betur. Við erum líklega með fjórtán fasta viðburði á ári, þannig að félagslífið er blómlegt. Tvisvar sinnum á ári erum við með sérstök þjóðarkvöld, þá kynna starfsmenn einstakra þjóða sem starfa hérna rétti frá sínum heimalöndum. Næst á dagskránni eru litlu-jólin og síðan taka við tónleikar og leikhúsferð, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er auðvitað töluverð vinna en þegar allir hjálpast að við undirbúninginn verður allt auðveldara og skemmtilegra.“
Kvöldið verður lengi í minnum haft
Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja var gestur á villibráðarkvöldinu.
„Þetta var einstaklega glæsilegt kvöld, maturinn frábær og allir í salnum skemmtu sér konunglega. Samherji hlaut nýverið verðlaun Íslensku sjávarútvegssýningarinnar 2024 fyrir fiskvinnsluhúsið á Dalvík, sem eitt hið fullkomnasta vinnsluhús í heimi. Það var því gott tilefni til að fagna og ég segi fyrir mína parta að þetta kvöld verður lengi í minnum haft. Að baki slíkrar matarveislu og skemmtunar liggur mikill undirbúningur sem skilaði sér í ríkulegri uppskeru starfsfólksins.“
Matseðillinn var sannarlega girnilegur. Sjá fleiri myndir:
Forréttir
Villisveppa súpa borin fram með súrdeigsbrauði
Grafinn lax með dilli og kryddjurtum
Lakkrísgrafinn lax
Reyktur lax
Sósur: graflaxsósa, piparrótarsósa
Grafin gæs
Lakkrís grafin gæs
Grafin svartfugl
Reykt gæs
Sólberjasósa
Hvítlauks og bláberjasulta
Aðalréttir
Heiðagæsa bringur sous vide og grillað
Hreindýr sous vide og grillað
Gæsalæra confit
Hrossafille í soja og wasabi
Villibráðarsósa
Meðlæti
Sætkartfölumús
Waldorf salat
Salat
Rótargrænmeti
Eftirréttur
Marengsbomba að hætti Fanneyjar og Júlíu í eldhúsinu.