Fréttatilkynning Nýherja hf.
,,Markmiðið að fá greiðari aðgang að upplýsingum og ná fram auknu hagræði,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja
Lokið hefur verið við þróun og uppsetningu á SAP viðskiptalausn fyrir Samherja en um er að ræða eina umfangsmestu uppsetningu á SAP fyrir íslenskt fyrirtæki. Einnig var settur upp MPS hugbúnaður frá Marel en með þessum breytingum er Samherji að efla upplýsingakerfi fyrirtækisins til að fá greiðari aðgang að upplýsingum og ná fram auknu hagræði, að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Innleiðingin var samstarfsverkefni Nýherja, Marels og Samherja og segir Þorsteinn að samstarfið hafi gengið vel. Þá hafi starfsmenn Samherja verið ákaflega jákvæðir í garð þessara umfangsmiklu breytinga og lagt mikið á sig til að læra á og tileinka sér kerfið.
Haldið utan um laun starfsmanna með einföldum hætti
Þorsteinn Már segir að breytingarnar á upplýsingakerfum Samherja snerti flestar starfsstöðvar fyrirtækisins hér á landi og þá sérstaklega höfuðstöðvar fyrirtækisins á Akureyri, rækjuverksmiðjuna Strýtu á Akureyri og landvinnsluna á Dalvík. Á þessum stöðum haldi SAP utan um alla helstu ferla fyrirtækisins en framleiðslu- og gæðaskráningarmál, bæði í Strýtu og á Dalvík, séu í MPS kerfinu frá Marel. ,,Þá eru aðrar starfsstöðvar, eins og Stöðvarfjörður og Grindavík, með SAP viðskiptalausnina til að halda utan um starfsmenn og launavinnslu. ,,Þannig er okkur gert mögulegt að vera með allar upplýsingar um laun starfsmanna, bæði til sjós og lands, á einum stað þar sem engin þörf er fyrir sérstakt launakerfi fyrir sjómenn.”
Sveigjanlegri og skilvirkari aðgangur
Hann segir að starfsmenn og stjórnendur Samherja hafi frá upphafi lagt mikinn metnað í verkefnið en markmiðið sé skapa mikinn ávinning fyrir fyrirtækið og auka samkeppnishæfni. ,,Með nýrri lausn erum við að fá sveigjanlegan og skilvirkan aðgang að upplýsingum um alla helstu ferla í okkar rekstri og stígum stórt skref til framtíðar í upplýsingavinnslu fyrirtækisins. Lausnin mætir auknum kröfum sjávarútvegsfyrirtækja, hvort sem um er að ræða hérlendis eða erlendis, þannig að hér er um að ræða vænlega útflutningsvöru.”
Sjálfvirkar tengingar á milli SAP og MPS
SAP viðskiptalausnin leysir af hólmi önnur kerfi í flestum ferlum innan Samherja og heldur utan um alla meginferla fyrirtækisins, eins og t.d. fjárhag, innkaup, birgðir og sölu. Samherji hefur verið með MPS hugbúnað frá Marel og unnu starfsmenn fyrirtækjanna í samstarfi við að endurnýja framleiðsluhluta upplýsingakerfis Samherja. Þannig var bætt við virkni þeirra MPS kerfa frá Marel sem þegar voru til staðar, auk þess sem hannaðar voru tengingar til að flytja gögn sjálfvirkt á milli MPS og SAP.
Greiðari aðgangur að upplýsingum, segir framleiðslustjóri Strýtu
Gestur Geirsson, framleiðslustjóri Strýtu, segir að innleiðing á hinu nýja upplýsingakerfi hafi gengið betur en hann þorði að vona. ,,Kerfið hefur virkað mjög vel og samþætting SAP og MPS hefur gert það að verkum að við höfum mun greiðari aðgang að upplýsingum en við höfðum áður, bæði er snertir fjárhagsupplýsingar varðandi kostnað sem og framleiðslu- og gæðaupplýsingar er varða þjónustu við viðskiptavini okkar. Þegar við þurfum að nálgast upplýsingar kemur í ljós hversu gríðarlega öflugur gagnabanki kerfið er.”
Hann segir að helsti ávinningur kerfisins fyrir Strýtu sé heildstætt kerfi sem haldi utan um ótal fjárhags- og framleiðsuþætti, allt frá veiðum til viðskiptavina. ,,Kerfið gerir það að verkum að við höfum rauntíma yfirlit yfir afkomu vinnslunnar og getum þar af leiðandi brugðist við ef eitthvað fer öðruvísi en áætlað var.”
Auðveldar áætlanagerð og markaðsstarf við sölu
Að sögn Einars Eyland, sölu- og markaðsstjóra uppsjávarafurða, veitir kerfið honum fullkomið söluyfirlit sem auðvelt er að skoða út frá ýmsum víddum. Þá veiti kerfið tæmandi upplýsingar um birgðahald. ,,Kerfið auðveldar alla áætlanagerð og markaðsstarf við sölu. Birgðahald hjá Samherja er mjög víðfemt og eru afurðir félagsins geymdar í yfir 40 birgðageymslum í yfir 10 þjóðlöndum. Þess vegna er lykilatriði að hafa góða yfirsýn til að geta afhent viðskiptavinum rétta vöru á réttum tíma.”
SAP fyrir sjávarútvegsfyrirtæki
Þessi nýja lausn fyrir Samherja er byggð á grunni mySAP Business Suite frá SAP en kerfið hefur verið þróað og stillt sérstaklega með tilliti til þarfa íslenskra útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja.