![]() Á myndinni eru Gústaf Baldvinsson og Pétur Pálsson við sýningarbás Samherja og Pickenpack - Hussmann & Hahn |
Nokkrir af helstu stjórnendum Vísis í Grindavík mættu til sýningarinnar og voru tíðir gestir á bás Samherja og Pickenpack - Hussmann & Hahn. Samherji selur umtalsvert magn afurða Vísis í gegnum sölukerfi sitt, en félögin gerðu sem kunnugt er samkomulag fyrir nokkrum mánuðum m.a. um veiðar, vinnslu og sölu afurða.
Í viðtali við Pétur Pálsson, framkvæmdastjóra Vísis á sýningunni, segir hann að samstarfið við Samherja hafi gengið mjög vel. Hann segir að tilgangur þess að mæta á slíka viðburði, sé ekki einungis sá að hitta viðskiptavini og samstarfsmenn, heldur einnig að gefa starfsfólki sínu tækifæri til að kynnast öllu því ferli sem fylgir því að framleiða vöru, markaðssetja hana og selja. "Með því að gefa starfsfólkinu kost á því að taka þátt í slíkri sýningu, erum við um leið að gera það hæfara á sínu sviði. Það læra allir mjög mikið á því að sjá hvernig varan sem við framleiðum er meðhöndluð eftir að hún hefur verið flutt frá Íslandi. Einnig er mjög mikilvægt að vera í sem bestu sambandi við þá sem við skiptum við og hér hittum við þá aðila."