Fundarstjóri, ágætu hluthafar og gestir!
1. Starfsumhverfið
Árið 2002 var almennt hagstætt íslenskum sjávarútvegi.
Veiðar gengu vel ef undan eru skildar veiðar úr íslenska síldarstofninum. Stöðugleiki ríkti í afurðaverðum og í sögulegu samhengi voru markaðsverð í flestum tegundum hagstæð. Verðbólga innanlands var í lágmarki.Ný lög um verulega lækkun skatta á fyrirtækjarekstur komu til framkvæmda á árinu og hafa lögin þegar haft jákvæð áhrif í atvinnulífinu. Eina sem skyggði á rekstraraðstæður á síðasta ári var óstöðugleiki íslensku krónunnar og styrking krónunnar umfram það sem forsendur eru fyrir í efnahagslífinu.Á árinu styrktist krónan um 12 % og tekjurýrnun sem af þessu leiddi hafði veruleg áhrif á framlegð sjávarútvegsfyrirtækja á seinni mánuðum ársins.
2. Afkoma og efnahagur
Rekstrartekjur Samherja h/f á árinu 2002 námu 13 milljörðum króna og er þetta nánast sama velta og árið áður. Rekstrargjöld námu10 milljörðum króna, sem er um 4% hækkun frá árinu áður. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 3 milljörðum króna.
Eftir afskriftir, fjármagnsliði, áhrif hlutdeildarfélaga og skatta var hagnaður Samherja á liðnu ári 1.879 milljónir króna, sem er mesti hagnaður í sögu félagsins.
Félagið hefur hætt að verðleiðrétta reikningsskilin og er það gert í samræmi við lög frá því í árslok 2001 en stjórn Samherja ákvað að nýta ekki tímabundna heimild til áframhaldandi verðleiðréttinga. Hefði þeirri heimild verið beitt væri hagnaður ársins tæpum 64 milljónum króna meiri, auk þess sem eigið fé félagsins væri 205 milljónum króna hærra.
Veltufé frá rekstri var 2.245 milljónir króna, sem er veruleg lækkun frá árinu áður en þá var fjármunamyndunin 3.092 milljónir króna. Meginskýringarnar á þessari lækkun eru annars vegar bein lækkun á framlegð rekstrar uppá rúmar fjögur hundruð milljónir króna og hins vegar greiðsla tekjuskatts uppá 270 milljónir króna. Félagið er nú komið í þá stöðu að borga tekjuskatt, sem áður var aðeins reiknuð stærð í rekstrarreikningi. Þetta hlýtur að teljast fagnaðarefni og einfaldlega vera merki um heilbrigðan rekstur. Ég er sannfærður um að það fiskveiðistjórnunarkerfi, sem hér er við lýði á hér stærstan hlut að máli. Ekki eru norsk sjávarútvegsfyrirtæki að borga mikla skatta um þessar mundir þrátt fyrir að þau selji afurðir sínar inn á sömu markaði og íslenskur sjávarútvegur.
Efnahagur Samherja h/f er mjög traustur og var eigið fé í árslok 8.202 milljónir króna, eða 37%. Arðsemi eigin fjár á árinu var um 30 % miðað við meðalstöðu eigin fjár að frádregnum hagnaði.
Nettóskuldir félagsins að frádreginni skattskuldbindingu voru í árslok tæpir 6,7 milljarðar króna, sem er hækkun frá árinu áður um 2,1 milljarð króna. Hækkunina má fyrst og fremst rekja til fjárfestinga í hlutabréfum í öðrum félögum því fjármunamyndun félagsins gerði meira en að mæta fjárfestingum í fastafjármunum í eigin starfsemi. En víkjum þá nánar að fjárfestingum ársins.
3. Fjárfestingar 2002
Fjárfestingar Samherja á árinu 2002 voru gríðarlega miklar, eða nettó um 5 milljarðar króna. Árið á undan voru fjárfestingar litlar og þegar litið er á þetta tveggja ára tímabil eru heildarfjárfestingar ívið lægri en nemur samanlagðri fjármunamyndun á þessum tveimur árum.
Helstu fjárfestingar voru eftirfarandi:
Tafla:Fjárfestingar Samherja h/f 2002
a) Útgerð(nettó): 1.418 millj.kr.
b) Landvinnsla: 276 millj.kr
c) Fiskeldi 204 millj.kr.
d) Síldarvinnslan h/f 1.319 millj.kr.
e) SR-mjöl h/f 709 millj.kr.
f) Hraðfrystistöð Þórshafnar 290 millj.kr.
g) Önnur félög(nettó) 874 millj.kr.
Samtals 5.090 millj.kr.
a) Fjárfestingar í skipum
Stærsta fjárfestingin í skipum fólst í kaupum og endurbótum á Baldvini Þorsteinssyni EA 10 en í árslok nam bókfært verð hans 1.627 milljónum króna. Á móti þessari fjárfestingu var Baldvin eldri, sem var fyrsta nýsmíði Samherja, seldur til DFFU í Þýskalandi fyrir 665 milljónir króna. Akureyrin EA 110 var seld til dótturfyrirtækisins Onward í Skotlandi. Í stað hennar var Sléttbakur keyptur á 218 milljónir króna og hefur hann sem nýja Akureyrin reynst mjög vel. Settur var vinnslubúnaður í Þorstein EA 810 og nam heildarkostnaður við þá framkvæmd um 224 milljónum króna.
Ljóst er að fjárbinding Samherja h/f í fjölveiðiskipum er orðin mjög mikil eða rúmir fjórir milljarðar króna, fyrir utan fjárbindingu í kvóta sem þessum skipum er ætlað að veiða.
Það er hins vegar jafnljóst að Vilhelm Þorsteinsson EA 11 hefur rækilega sannað tilverurétt sinn og sama má segja um Þorstein EA 810. Vilhelm er búinn að vera tekjuhæsta skip á Íslandsmiðum tvö ár í röð og afkoman af rekstri skipsins hefur verið mjög góð.
Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvernig rekstur Baldvins Þorsteinssonar EA 10 verður á þeim sviðum sem honum eru fyrst og fremst ætluð. Baldvin verður m.a. útbúinn til rækjuveiða og hann hefur mjög mikla frystigetu sem getur nýst vel við magnfrystingu á síld og loðnu. Ef aðstæður skapast til að nýta kolmunna til manneldis mun frystigeta Baldvins geta skipt sköpum í því samhengi.
Þessar miklu fjarfestingar í fullkomnum fjölveiðiskipum sýna hins vegar hvað það er nauðsynlegt að hafa stór og öflug fyrirtæki sem geta ráðist í slík verkefni og hafa bolmagn til þess að vinna úr hlutunum ef allt gengur ekki eftir eins og áætlað var frá fyrsta degi. Það er þess vegna algerlega óskiljanlegt að sumir stjórnmálamenn finna þessari stærð af félögum allt til foráttu. Þessir fulltrúar okkar á þjóðþinginu, sem eiga að hafa það sem eitt af meginverkefnum að beita sér fyrir aðgerðum til að auka heildar verðmætasköpun þjóðarinnar, virðast alls ekki skilja hvaða þýðingu það hefur fyrir þjóðarbúið að auka t.d. vinnslu og nýtingu á uppsjávarfiski til manneldis. Það er útilokað að smærri fyrirtæki geti lagt þá fjármuni til, sem nauðsynlegir eru í þessu samhengi.
b) Fjárfestingar í landvinnslu
Fjárfestingar í landvinnslu námu samtals 276 milljónum. Stærstu liðir þar voru fjárfestingar tengdar hausaþurrkun og vinnslunni á Dalvík, samtals tæpar 90 milljónir króna. Fjárfesting í fiskimjölsverksmiðjunni í Grindavík var 50 milljónir króna og sama upphæð var fjárfest í rækjuvinnslunni á Akureyri. Heildarfjárfesting á skrifstofu á Akureyri var um 75 milljónir króna en þar hefur meðal annars verið unnið að innleiðingu nýs tölvu- og hugbúnaðarkerfis. Ég verð að játa að ég hef aldrei heyrt um innleiðingu jafn viðamikils kerfis sem gengið hefur jafn vel og þarna hefur átt sér stað. Mér finnst sérstök ástæða til að óska starfsmönnum Samherja, sem þarna stóðu að verki til hamingju með þennan árangur svo og Nýherja h/f sem kerfið er keypt af.
c) Fjárfestingar í fiskeldi
Fjárfestingar í fiskeldi í samstæðunni námu 204 milljónum króna á árinu 2002. Þar er fyrst fremst um að ræða fjárfestingu Sæsilfurs í áframhaldandi uppbyggingu laxeldis í Mjóafirði. Þar voru settar út fjórtán nýjar kvíar á síðasta ári og fjárfest í svokölluðum fóðurpramma sem sér alfarið um fóðrun í þessum kvíum.
Sæsilfur h/f varð fyrir verulegu áfalli sl. sumar þegar rúmlega fimmtungur útsettra seiða drapst vegna marglittufaraldurs Að öðru leyti hefur eldið gengið vel og vöxturinn verið í fullu samræmi við áætlanir.
Í lok þessa mánaðar eigum við von á að brunnbáturinn, Snæfugl SU 20 komi til landsins en hér er um að ræða Guðmund Ólaf ll frá Ólafsfirði, sem er í umfangsmiklum breytingum í Póllandi. Öll fullkomnasta tækni er þarna til staðar til að flytja lifandi fisk og mun tilkoma þessa báts skipta sköpum varðandi flutning á seiðum og vegna flutninga á laxi til slátrunar.
Samherji h/f hefur fengið úthlutað leyfi til 6.000 tonna laxeldis í Eskifirði og utanverðum Reyðarfirði. Unnið er að því að fá tilboð í búnað og fjármögnun og mun stjórn Samherja h/f taka endanlega ákvörðun í þessu máli þegar niðurstöður úr þessum athugunum liggja fyrir.
Dótturfyrirtæki Sæsilfurs hefur nú fengið úthlutað leyfi til 2.000 tonna þorskeldis í Eyjafirði. Allmörg ár munu líða þar til unnt verður að hefja matfiskeldi á þorski í stærri stíl. Nú er hins vegar mikilvægt að stjórnvöld og fyrirtæki í greininni sameinist um að hefja öflugt rannsóknastarf sem miði að því að finna heppilegan klakstofn og þróa seiðaframleiðslu. Samherji er í gegnum aðild sína að Fiskeldi Eyjafjarðar, þátttakandi í samstarfi sem er að hefjast á þessu sviði en meðal annarra þátttakenda eru Stofnfiskur, sem hefur sérhæft sig í framleiðslu laxa- og bleikjuhrogna, og Hafrannsóknastofn.
c) Síldarvinnslan h/f
Samherji keypti hlutabréf í Síldarvinnslunni fyrir um 1.319 milljónir króna á árinu 2002. Hagnaður Síldarvinnslunnar á árinu var um 1.190 milljónir króna og veltufé frá rekstri 872 milljónir króna.
Síldarvinnslan og Samherji eru í nánu samstarfi á fjölmörgum sviðum og það samstarf á væntanlega eftir að eflast enn frekar á næstu árum. Samherji er stærsti eigandi að Síldarvinnslunni og samanlagt eiga Samherji og tengd félög rúm 40% í SVN eftir sameininguna við SR mjöl h/f.
e) SR-mjöl h/f
Á liðnu ári keyptu Samherji h/f og Síldarvinnslan h/f stóra hluti í SR-mjöli h/f. Samtals var kaupverð þeirra hluta um 2,5 milljarðar króna. Bréfin voru keypt á verði sem var verulega yfir markaðsverði.
Réttlæting þessa var sú að stefna að sameiningu SR-mjöls h/f og Síldarvinnslunnar h/f og ná þannig fram verulega aukinni hagræðingu í veiðum og vinnslu uppsjávarfiska. Þetta gekk allt eftir og í árslok 2002 lá fyrir samkomulag um að sameina félögin. Sameiningin var svo staðfest í byrjun mars með samþykki á aðalfundum félaganna.
Aflaheimildir sameinaðs félags ásamt aflaheimildum hlutdeildarfélaga verða um 390 þúsund tonn miðað við meðalúthlutun síðustu ára eða sem jafngildir um 26 þúsund þorskígildistonnum. Starfstöðvar verða á 15 stöðum hér á landi eins og þessi mynd sýnir og á tveimur stöðum erlendis, það er í Bandaríkjunum og á Grænlandi. Fyrirsjáanlegt er, að hráefni til fiskimjölsverksmiðja mun minnka verulega á næstu árum. Mér sýnist margt benda til að magnið gæti minnkað um að minnsta kosti einn þriðja á næstu 5-8 árum.
Ástæðan er annars vegar sú að mun meira af uppsjávarfiski fer á komandi árum til manneldis og hins vegar sú að kvóti tegunda eins og kolmunna verður minni en áður. Miðað við spá sem hér er sýnd og gerir ráð fyrir að 90% af íslensku síldinni fari til manneldis árið 2011, 80% af norsk-íslensku síldinni, 10% af loðnunni og 50% af kolmunnanum, má ætla að uppsjávarfiskur til bræðslu verði kominn niður fyrir eina milljón tonna eftir 8 ár. Þetta er rúmlega hálfri milljón tonna minna en á síðasta ári.
Þetta þýðir að það er að hámarki þörf fyrir 8-10 bræðslur í landinu í lok þessa áratugar en á síðasta ári voru bræðslurnar 21 talsins
f) Hraðfrystistöð Þórshafnar
Samherji keypti hlutabréf í Hraðfrystistöð Þórshafnar fyrir tæpar 300 milljónir króna á síðasta ári og á Samherji nú rétt tæp 50% í HÞ. Afkoma félagsins var góð á árinu. Hagnaður var 312 milljónir króna og veltufé frá rekstri 358 milljónir.
Mikil breyting hefur orðið á rekstri HÞ á síðustu tveimur árum og er skuldastaðan nú orðin allt önnur og betri en hún var á árinu 2000, þegar Samherji kom upphaflega að félaginu.
g) Kaldbakur
Samherji keypti á liðnu ári um 15% hlut í Kaldbaki h/f fyrir samtals 794 milljónir króna og var hluti af upphæðinni greiddur með hlutabréfum í öðrum félögum.
4. Þróun gengis íslensku krónunnar.
Ég minntist á það í upphafi ræðu minnar að það eina sem skyggði á varðandi rekstrarumhverfið væri óstöðugleiki íslensku krónunnar.
Árið 2001 veiktist hún mikið og ársreikningar fyrirtækjanna það ár bera með sér mikið gengistap. Árið 2002 er hins vegar mikill gengishagnaður. Hjá Samherja breytast tölurnar úr því að vera 1.048 milljónir í mínus í að vera 1.067milljónir króna í plús. Það er sveifla upp á hvorki meira né minna en rúmar 2.100 milljónir króna. Áframhaldandi og illskiljanleg styrking krónunnar á yfirstandandi ári er farin að hafa veruleg áhrif á afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu og fyrirtækja í samkeppnis- og útflutningsiðnaði.
Við fögnum uppbyggingu orkuiðnaðar og stóriðju á Austurlandi en það verður dýr framkvæmd fyrir þjóðina ef hún slátrar þeim vaxtarsprotum sem t.d. hafa verið að þróast í ferðaþjónustu. Með gengi sem ákvarðast meira af væntingum en raunverulegum forsendum efnahagsstarfseminnar, er veruleg hætta á að svo verði. Þá munu fljótlega fjúka fleiri störf en skapast við framkvæmdir á fjöllum og í fjörðum eystra. Ég tel að það sé eitt brýnasta verkefni stjórnvalda í efnahagsmálum nú að sjá til þess að fjármögnun þeirra virkjanaframkvæmda, sem framundan eru, verði með þeim hætti, að jafnvægi og stöðugleiki ríki á gjaldeyrismarkaði.
Fyrir útflutningsfyrirtæki eins og Samherja h/f, sem fær allar sínar tekjur í erlendri mynt og þar sem kostnaður er háður sveiflum á gengi erlendra gjaldmiðla, hlýtur það að vera umhugsunarefni hvort ekki eigi að taka upp skráningu á bókhaldi félagsins og hlutabréfum í erlendri mynt.
Þessar sveiflur, þar sem eitt árið er milljarður í gengistap og hitt árið milljarður í gengishagnað eru auðvitað algerlega óþolandi. Með því að færa allt bókhald í erlendum gjaldmiðlum, eins og nokkur fyrirtæki hafa þegar farið út í, yrði dregið verulega úr slíkum sveiflum í rekstrarreikningi fyrirtækja sem nær eingöngu selja á erlendan markað.
5. Velta og fjármunamyndun Samherja og samstarfsfyrirtækja.
Á síðasta aðalfundi ræddi ég nokkuð um vöxt Samherja á undanförnum árum í samanburði við innlend og erlend sjávarútvegsfyrirtæki og spáði um hugsanlega þróun á næstu fimm árum. Ég nefndi að miðað við tilteknar forsendur væri 50 milljarða króna velta hjá Samherja og samstarfsfyrirtækjum eftir fimm ár alls ekki óraunhæf. Til þess að svo megi verða þarf velta þeirra að aukast að meðaltali um 4 milljarða á ári. Hvernig skyldi þetta hafa þróast á nýliðnu ári?
Heildarvelta Samherja og samstarfsfyrirtækja á árinu 2002 var samkvæmt þessu 37,6 milljarðar króna. Veltan var 31 milljarður árið 2001 þannig að hún hefur aukist um sex og hálfan milljarð milli ára.
Veltan sem slík er auðvitað ekki aðalatriði heldur hvað verður eftir úr rekstrinum til að mæta arðgreiðslum, afborgunum lána og fjárfestingum. Við skulum líta á hvernig fjármunamyndun félaganna var á síðasta ári:
Samkvæmt þessu er veltufé frá rekstri hjá Samherja og samstarfsfyrirtækjum á liðnu ári, samtals um 5 milljarðar króna. Þetta er mikil fjárhæð og sýnir auðvitað mikinn sameiginlegan styrk þessara félaga og undirstrikar möguleika þeirra til að takast á við ný viðfangsefni í framtíðinni.
6. HlutabréfamarkaðurinnHlutabréfamarkaðurinn á Íslandi hresstist nokkuð við á síðasta ári og hækkaði úrvalsvísitalan um 17% frá upphafi til loka árs og vísitala sjávarútvegs hækkaði um 24%. Gengi hlutabréfa í Samherja stóð nánast í stað á árinu. Gengið var 10,13 í upphafi árs en 10,0 í árslok. Árið áður hafði gengið hins vegar hækkað um 16,2%.
Samherji greiddi 30% arð í fyrra, vegna ársins 2001. Þar sem markaðsverð hlutabréfanna stóð í stað var arðsemi af hlutabréfaeign í Samherja á árinu 2002 því fyrst og fremst sjálf arðgreiðslan og er raun arðsemin því 3%. Þetta er auðvitað alls ekki sú ávöxtun sem við viljum sjá á hlutbréfaeign í Samherja. Hins vegar er ljóst að raungengi íslensku krónunnar hefur mikil áhrif á afkomuna og þar með á þær væntingar sem gerðar eru til hlutabréfanna. Lækkun á gengi hlutabréfa í sjávarútvegsfyrirtækjum er ekki óeðlileg afleiðing af styrkingu íslensku krónunnar.
Ef gengi Samherja er umbreytt í Evrur í lok árs 2001 og í lokárs 2002 kemur í ljós að gengið hefur hækkað um tæp 7% á árinu. Miðað við þann tekjugrunn sem félagið vinnur á má færa fyrir því rök að ávöxtunin hafi verið um 10%. En hvað um það, við viljum að sjálfsögðu sjá arðsemi hlutabréfaeignar í Samherja verulega meiri en þetta í framtíðinni.
6. Framtíðarverkefni.
Eins og fram kom hér á undan höfum við fjárfest mikið á undanförnum árum og eitt af verkefnum næstu missera verður að treysta arðsemi þessara fjárfestinga.
Mig langar að nefna tvö verkefni sem tengjast annars vegar rekstri fjölveiðiskipa og hins vegar starfsemi fiskeldis í framtíðinni. Kjarninn í þessum verkefnum eru flutningamál og markaðsmál.
Fyrra verkefnið er vinnsla á kolmunna til manneldis. Samherji og samstarfsfyrirtæki hafa til ráðstöfunar um 45% kolmunnakvótans en það svarar til um 140 þúsund tonnum á þessu ári.
Það er alltaf þörf fyrir ódýran mat í heiminum og kolmunni er hvítfiskur sem er í reynd mjög góður matfiskur. Það þarf hins vegar að þróa vinnsluaðferðir sem henta nýtingu á kolmunna en væntanlega yrði vinnslan fyrst og fremst um borð í fjölveiðiskipum vegna þess að erfitt er að halda kolmunna nægilega ferskum til að vinna hann í landi. Jafnhliða þarf að byggja upp öflugt markaðsstarf en nú þegar er til staðar töluverður markaður fyrir kolmunna, t.d í Kína og Austur-Evrópu.
Á ódýrum vörum eins og frystri loðnu og kolmunna vegur flutningskostnaður á markað mjög þungt. Því þarf að finna leiðir til að koma frystum kolmunna á markað með eins lágum tilkostnaði og nokkur kostur er. Það verður helst gert með því að leigja mjög stór skip sem tækju t.d. 5-8 þúsund tonn í einni ferð. Aðstæður eru til staðar í Samherjasamstæðunni til að gera þetta. Frystigeymsla Síldarvinnslunnar í Neskaupstað getur tekið um 8.000 tonn af frystum afurðum og þannig gætu kolmunnaskipin landað þar uns komið væri nægjanlegt magn í stórt skip.
Flutningskostnaður gæti lækkað um fleiri hundruð milljónir króna og það gæti skipt sköpum varðandi það að ná arðbærri vinnslu á kolmunna úti á sjó.
Fyrir hundrað þúsund tonn af kolmunna, sem færu í vinnslu í stað bræðslu, myndu verðmætin væntanlega allt að þrefaldast. Þau gætu sem sagt orðið allt að 3 milljarðar króna í stað rúmlega eins milljarðs en það eru verðmætin sem fást ef kolmunninn fer í bræðslu.
Síðara verkefnið er á sviði markaðs- og flutningamála og varðar ferskan lax. Margir telja að það sé bara eitt verð á laxi á erlendum mörkuðum en svo er alls ekki. Skotar og Írar hafa oft fengið hærra verð en Norðmenn fyrir lax af ákveðnum gæðum í Evrópu. Framleiðendur í Bandaríkjunum og Kanada fá oft verulega hærra verð fyrir sinn lax í Bandaríkjunum en framleiðendur í Chile og er ástæðan m.a. meiri ferskleiki afurða.
Við höfum einstaka stöðu varðandi laxeldið okkar. Við veiðum sjálfir loðnuna sem fer til framleiðslu á fiskimjöli og lýsi, við búum til fóðrið, við framleiðum seiðin, við slátrum, vinnum og pökkum og við markaðssetjum afurðirnar. Þessi vinnslukeðja innan samstæðunnar býður upp einstakan rekjanleika.
Gæði á íslenskum eldisfiski eiga að geta verið í algeru hámarki. Hreinleiki sjávar við strendur Íslands er ótvíræður og sjúkdómar eru hér í lágmarki. Laxalús er víða verulegt vandamál en ekki hér á Íslandi. Allt á þetta að geta tryggt okkur verð sem eru ekki lægri en hæstu verð almennt á markaðnum. Ég er alveg sannfærður um það að með réttri markaðssetningu ættum við að geta fengið að meðaltali 10% hærra verð en flestir keppinautanna.
Ef áætlanir ganga eftir má gera ráð fyrir að cif verðmæti laxeldis hjá Samherja gæti orðið yfir 3 milljarðar króna eftir 2-3 ár, miðað við 10 þúsund tonna framleiðslu af slægðum laxi. Hvort verðið er 10% hærra eða lægra svarar til fjárhæðar upp á hvorki meira né minna en 300 milljónir króna á ári. Fjárfesting í markaðsmálum á þessu sviði getur því verið einhver arðbærasta fjárfesting sem hægt er að ráðast í. Áhersla á sölu- og markaðsmál getur þannig verið mjög arðbær og skilað verulegum ávinningi til framtíðar.
Flutningskostnaður er vandamál í fiskeldi eins og í vinnslu uppsjávarfiska en á annan hátt. Ástæðan er sú að við þurfum að stærstum hluta að koma vörunni ferskri á markað.
Væntanlega komum við til með að flytja lax bæði vestur um haf og austur í framtíðinni. Á margan hátt eru Bandaríkin áhugaverðasti markaðurinn fyrir okkur, fyrst og fremst vegna þess að mikill vöxtur er á þeim markaði og spurninni eftir viðbótarlaxi á því svæði verður ekki mætt með öðru en flutningi í flugi langt að, mest frá Chile.
Kosturinn við Evrópu er að þá getum við flutt laxinn með skipum og kostnaður okkar yrði þá sambærilegur við flutning frá Noregi til Mið-Evrópu. Gallinn er hins vegar sá að það er nánast aðeins ein ferð í viku og meðan svo er, er útilokað að byggja upp viðunandi tíðni og öryggi í afhendingu.
Leita þarf leiða til að ná verulega niður flugfraktinni til Bandaríkjanna. Með flutningi innanlands kostar nú um 150 krónur að koma hverju kílógrammi af laxi frá Norðfirði til Bandaríkjanna.
Vísbendingar eru um að með fraktflugi í stórum vélum beint frá Egilsstöðum væri hægt að lækka þennan kostnað um þriðjung.
Miðað við 10 þúsund tonna framleiðslu á ári, eða um tvö hundruð tonna sölu á viku til Bandaríkjanna nemur kostnaður nú við að koma vörunni á markað um einum og hálfum milljarði króna. Ef við gætum lækkað kostnaðinn um þriðjung værum við að tala um 500 milljóna króna lækkun á flutningskostnaði á ári. Þetta eru ótrúlega stórar tölur sem snúa að þessum flutningamálum en svona er þetta og því til mikils að vinna ef hægt verður að ná fram auknu hagræði á þessu sviði.
7. Horfur
Áætlanir gera ráð fyrir að Samherji verði rekinn með hagnaði á árinu. Rekstur móðurfélags Samherja hefur á flestum sviðum verið mjög góður og sífellt er verið að skoða alla gjaldaliði til að lækka kostnað og jafnhliða að leita leiða til að hækka tekjur.
Sama árangri þarf að ná í hlutdeildarfélögum Samherja h/f Styrkur Samherja eru öflugir stjórnendur og gott starfsfólk til sjós og lands. Starfsfólk sem er mjög meðvitað um mikilvægi þess að gera betur í dag en í gær.
8. Lokaorð
Ágætu fundarmenn!
Fyrir hönd stjórnar Samherja h/f þakka ég forstjóra félagsins og öðrum starfsmönnum Samherja fyrir gott samstarf og góðan árangur í rekstri á síðasta ári. Ég þakka meðstjórnarmönnum mínum fyrir ánægjulegt samstarf og hluthöfum og viðskiptamönnum þakka ég tryggð og viðskipti við félagið.