Gunnar Aspar hættir hjá ÚA eftir 59 ára starf!
29.12.2020
Gunnar B. Aspar hefur borið marga titla á tæplega 60 ára starfsferli í fyrirtækinu sem hét Útgerðarfélag Akureyringa (ÚA) þegar Gunnar hóf störf þar, varð síðar Brim og svo ÚA að nýju. Hann byrjaði sem liðléttingur og handflakari, varð síðar aðstoðarverkstjóri, verkstjóri, framleiðslustjóri og sérstakur ráðgjafi. Gunnar hefur aldrei unnið hjá öðrum en „fyrirtækinu við Fiskitanga“, hefur starfað með öllum framkvæmdastjórunum sem þar hafa verið frá upphafi og hefur nokkrum sinnum á síðustu árum sagt eitthvað á þessa leið við nýjan starfsmann: „Ég vann með langafa þínum/langömmu þinni hér í byrjun sjöunda áratugarins.“ Gunnar lét af störfum rétt fyrir jólin og var kvaddur með virktum.