Engin störf töpuðust í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu þar starfsemi á árinu 2012. Fullyrðingar þess efnis að þúsundir starfa hafi glatast, sem komu fram í fjölmiðlum í gær, eiga ekki við nein rök að styðjast. Um er að ræða sömu rangfærslur og Samherji leiðrétti á síðasta ári.
Félög tengd Samherja tóku eingöngu þátt í uppsjávarveiðum í namibísku efnahagslögsögunni og var þar einkum um að ræða veiðar á hrossamakríl. Árið 2011 var úthlutunarreglum breytt á uppsjávartegundum í Namibíu. Fjórðungur aflaheimilda í uppsjávarfiski var færður til namibískra félaga og einstaklinga, aðallega frá suður-afrískum stórfyrirtækjum. Eftir úthlutun aflaheimilda í hrossamakríl leituðu namibískir aðilar eftir samstarfi við félög tengd Samherja um nýtingu þeirra.