Fréttir

Polonus landaði á Akureyri fullfermi af rækju úr Smugunni

Frystitogarinn Polonus Gdy, sem er í eigu Deutsche Fischfang Union (DFFU) í Cuxhaven, dótturfélags Samherja, landaði fullfermi af rækju og blönduðum afla á Akureyri í síðustu viku en aflinn var veiddur norðarlega í Smugunni. Það er ár síðan skipið landaði síðast á Íslandi.

Harengus siglir með 4.000 tonn gegnum Magellansund

Harengus, annað flutningaskipa Samherja, er um þessar mundir að lesta í San Vicente í Chile 4.000 tonnum af uppsjávarfiski sem á að fara á markað í Nígeríu. Skipið, sem er í leiguverkefnum hjá Green Sea í Belgíu, sigldi í gegnum Magellansund á leiðinni vestur fyrir Suður-Ameríku og var öll siglingin fest á filmu.
Það þótti viðeigandi að mynda ferðalagið þar sem að á þessu ári eru liðin 500 ár frá landafundum portúgalska landkönnuðarins Ferdinand Magellan. Það var í október 1520 sem Magellan fann sundið milli Atlantshafs og Kyrrahafs og fékk það síðar nafnið Magellansund. Magellan fór þar fyrir fyrstu hnattsiglingunni en náði þó ekki að ljúka henni því hann lést áður en það tókst að loka hringnum.

Samherja Holding veitt undanþága frá tilboðsskyldu í Eimskip

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veitti í dag Samherja Holding, systurfélagi Samherja, undanþágu frá tilboðsskyldu í Eimskipafélag Íslands hf. Það er niðurstaða eftirlitsins að núverandi aðstæður á fjármálamarkaði í ljósi Covid-19, bæði hér á landi og í heiminum öllum, séu með þeim hætti að skilyrði laga um verðbréfaviðskipti um sérstakar aðstæður séu uppfyllt.

Markaðir snarbreyst á tveimur vikum

Markaðir fyrir ferskar sjávarafurðir hafa snarbreyst á aðeins tveimur vikum og útflutningur á ferskum fiski er aðeins um fjórðungur af því sem hann var áður en Covid-19 faraldurinn hófst. Þá er óvissa um hvernig markaðir munu þróast á næstunni. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í bréfi sem Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja, sendi áhöfnum á skipum í útgerðarflota fyrirtækisins á dögunum. Kristján hvetur sjómenn til dáða í bréfinu og segir að Samherji hafi alltaf getað treyst á sjómenn að skila sínu óháð aðstæðum. Hann fer einnig yfir þau margþættu áhrif sem faraldurinn hefur haft á rekstur Samherja og hvernig starfsfólk hefur aðlagað sig að breytingum sem ráðist hefur verið í vegna krafna um sóttvarnir.

Þorsteinn Már kemur aftur til starfa

Stjórn Samherja ákvað í dag að Þorsteinn Már Baldvinsson snúi aftur til starfa og verði forstjóri við hlið Björgólfs Jóhannssonar sem gegnir forstjórastarfi sínu áfram þar til annað verður ákveðið.

Hólmadrangur tekur þátt í frumkvöðlaverkefni á Vestfjörðum

Rækjuvinnslan Hólmadrangur ehf., dótturfélag Samherja, er þátttakandi í nýsköpunarsamkeppninni „Hafsjór af hugmyndum“ á vegum Sjávarklasa Vestfjarða og Vestfjarðastofu.

Um er að ræða keppni í nýsköpun á sviði sjávarútvegs en markmið keppninnar er að hvetja starfandi fyrirtæki, frumkvöðla og nemendur til nýsköpunar, skapa ný störf í sjávarútvegi á Vestfjörðum, auka verðmætasköpun í ólíkum greinum sjávarútvegs og bæta nýtingu hráefnis.


Samherji Holding óskar eftir undanþágu frá yfirtökuskyldu í Eimskip

Samherji Holding ehf., systurfélag Samherja, hefur sent fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands erindi þar sem félagið óskar eftir undanþágu frá yfirtökuskyldu eftir að félagið fór yfir mörk 30% eignarhlutar í Eimskip.

Margþættar aðgerðir vegna Covid-19

Þær aðstæður sem nú ríkja vegna Covid-19 eiga sér vart hliðstæðu og hafa á einn eða annan hátt haft áhrif á öll fyrirtæki í íslensku atvinnulífi. Samherji hefur gripið til margþættra aðgerða til að fyrirbyggja smit og innleitt öryggisáætlanir um rétt viðbrögð ef smit kæmi upp meðal starfsmanna.

„Samherji leggur mikla áherslu á að tryggja öryggi allra starfsmanna sem og viðskiptavina sinna en eitt af meginmarkmiðum Samherja er að gera fyrirtækið að öruggum og slysalausum vinnustað. Af þessari ástæðu tókum við mögulega útbreiðslu Covid-19 alvarlega frá fyrsta degi og gripum til sérstakra ráðstafana. Með því vildi Samherji leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja útbreiðslu veirunnar og gera allt til að koma í veg fyrir smit í starfsstöðum fyrirtækisins,“ segir Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.

Öflugt félagslíf hjá Samherja á Dalvík

Fjölskyldudagur Fjörfisks, starfsmannafélags Samherja á Dalvík, fór fram á skíðasvæðinu í Böggvisstaðafjalli á dögunum. Um er að ræða árlegan viðburð þar sem sem Fjörfiskur leigir skíðasvæðið í þrjár klukkustundir og félagsmönnum gefst kostur á að mæta með mökum, börnum og barnabörnum.
Þeir sem ekki áttu skíðabúnað fengu hann lánaðan sér að kostnaðarlausu. Að auki var boðið upp á vöfflur og heitt kakó. Að þessu sinni mættu um 80 manns en þetta er í fimmta sinn sem starfsmannafélagið Fjörfiskur heldur fjölskyldudag að vetri til.

Ívið meiri afli þrátt fyrir válynd veður

Þrátt fyrir válynd veður og afar óhagstæð skilyrði til veiða hafa fjögur ísfiskskip í útgerðarflota Samherja veitt meira fyrstu tvo mánuði þessa árs en þau veiddu á sama tímabili í fyrra. Skýrist aukinn afli einkum af því að meira hefur veiðst af þorski og er munurinn 876 tonn milli ára.
Um er að ræða ísfiskskipin Björgúlf EA 312, Björgu EA 7, Kaldbak EA 1 og Björgvin EA 311. Heildarafli skipanna fjögurra fyrstu tvo mánuði ársins var 4.924 tonn sem er 82 tonnum meira en samanlagður heildarafli þeirra í janúar og febrúar 2019.