Fréttir

Þorláksmessubréf til starfsmanna

Ágætu vinnufélagar.
Þegar ég tók við sem starfandi forstjóri Samherja vissi ég að það væru öflugir starfsmenn hjá fyrirtækinu. Öðruvísi hefði það ekki orðið leiðandi í evrópskum sjávarútvegi. Hins vegar kom það mér ánægjulega á óvart hvað mannauðurinn í félaginu er í raun og veru framúrskarandi. Þetta hef ég skynjað mjög sterkt undanfarnar vikur. Það er greinilega valinn maður í hverju rúmi. Góður liðsandi er ríkjandi og fyrirtækjamenningin er þannig að það er alltaf gaman í vinnunni, sama hvers eðlis verkefnin eru.
Óveðrið sem lék landsmenn grátt fyrr í þessum mánuði olli talsverðu tjóni á landsbyggðinni. Rafmagnsleysið í kjölfar veðurofsans varð þess valdandi að öll vinnsla okkar á Dalvík lá niðri í fimm daga og hleypur tjón vegna þess á tugum milljóna króna. Hins vegar tókst að afstýra tjóni vegna hráefnis og hluti starfsmanna á Dalvík færði sig yfir til Akureyrar þar sem við jukum framleiðsluna tímabundið meðan það var rafmagnslaust á Dalvík.
Blessunarlega varð ekkert tjón á tækjabúnaði og skipum. Vinnsla hófst svo aftur á Dalvík síðastliðinn þriðjudag. Ég vil nota þetta tækifæri til að koma á framfæri þakklæti til viðbragðsaðila fyrir þeirra óeigingjarna starf í kjölfar rafmagnsleysisins. Ég vil jafnframt þakka þeim starfsmönnum, sem færðu sig tímabundið til Akureyrar, alveg sérstaklega fyrir.

Kæri Kristinn

-Björgólfur Jóhannsson svarar Kristni Hrafnssyni talsmanni Wikileaks
Sæll Kristinn Hrafnsson og hafðu þökk fyrir opna bréfið. Í minni heimasveit er til siðs að svara sendibréfum jafnvel þótt opin séu. Það geri ég nú en ætla mér þó ekki að stunda bréfaskriftir við þig í framhaldinu.
Það kemur mér þægilega á óvart að af bréfi þínu virðist mega ráða að þú hafir nokkurn áhuga á að hið sanna komi ljós. Það er líka gott að þú staðfestir í bréfinu að tölvupóstarnir hafi verið handvaldir eins og ég hélt fram. Við þurfum þá ekki að deila um það.
Athugun Samherja á þeim gögnum sem Wikileaks birti leiddi í ljós að aðeins voru birt 42% af tölvupóstum Jóhannesar Stefánssonar frá tímabilinu 2014-2016. Við nánari skoðun kom í ljós að hlutfallið var miklu lægra og er það nær 30%. Þannig virðist 50 þúsund tölvupóstum hafa verið sleppt.
Kristinn, þú segir í bréfi þínu til mín:

Nýr fjármálastjóri hjá Samherja í Hollandi

Steingrímur H. Pétursson hefur verið ráðinn fjármálastjóri á skrifstofu Samherja í Hollandi. Steingrímur hefur fjölþætta reynslu úr íslensku viðskiptalífi og býr yfir mikilli sérþekkingu á sviði fjármála.
Steingrímur kemur til Samherja frá Högum þar sem hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra fjármála- og viðskiptaþróunar en þar á undan var hann framkvæmdastjóri fjármálasviðs Olís um þriggja ára skeið. Steingrímur hefur einnig gegnt stöðu framkvæmdastjóra hjá Eimskip, Sandblæstri og Málmhúðun og Fjárfestingarfélaginu Sjöfn en hóf starfsferil sinn að loknu háskólanámi hjá KPMG Endurskoðun á Akureyri þar sem hann vann í fjögur ár.
Steingrímur er með meistaragráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hann er kvæntur Lindu Björk Sævarsdóttur og eiga þau þrjú börn. Samherji býður Steingrím hjartanlega velkominn til starfa.

Nýr aðstoðarframkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood

Hlynur Veigarsson hefur tekið við nýju starfi sem aðstoðarframkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood. Hlynur mun gegna starfi framkvæmdastjóra í fjarveru Gústafs Baldvinssonar sem áætlað er að snúi aftur til starfa í apríl næstkomandi. Eftir það mun Hlynur gegna starfi aðstoðarframkvæmdastjóra við hlið Gústafs.

Hlynur hefur starfað hjá Samherja frá árinu 1992 þegar hann var til sjós á ýmsum frystitogurum Samherja á sumrin, meðfram námi. Hlynur kom fyrst inn í söludeild Samherja á árinu 2002 sem sölustjóri eldisafurða og annaðist hann síðar sölu á sjófrystum afurðum inn á Asíumarkað.

Hynur er með meistaragráðu í matvæla- og rekstrarfræði frá Háskóla Íslands. Hann er kvæntur Þórhöllu Andrésdóttur og eiga þau saman fjögura börn.

Bréf til starfsmanna

Ágætu vinnufélagar.
Það gerist ekki á hverjum degi að sótt sé að fyrirtækinu af þeirri hörku sem við höfum séð í fjölmiðlum síðustu vikur. Samherji reyndi að bregðast við ásökunum á ábyrgan hátt. Birtingarmyndir þess voru tvíþættar. Annars vegar steig Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri tímabundið til hliðar og hins vegar réð stjórn Samherja norsku lögmannsstofuna Wikborg Rein til að rannsaka málið.

Nú þegar sjáum við að stór hluti þeirra ásakana sem settar hafa verið fram á hendur Samherja á ekki við rök að styðjast. Á dögunum leiðréttum við rangar fréttir Ríkisútvarpsins og Stundarinnar um félagið Cape Cod FS. Eins og fram kom í tilkynningu á heimasíðu Samherja var Cape Cod FS aldrei í eigu Samherja eða tengdra félaga heldur var það í eigu starfsmannaleigunnar JPC Shipmanagement sem Samherji átti í viðskiptum við til að manna áhafnir á skipum í namibísku efnahagslögsögunni. Sú staðreynd að ...

Handvaldir tölvupóstar

Undanfarið hefur Samherji látið kanna þau gögn sem Wikileaks hefur birt um félagið en þar er aðallega um að ræða mikið magn tölvupósta úr pósthólfi Jóhannesar Stefánssonar. Þetta eru þau gögn sem fjölmiðlar hafa stuðst við í umfjöllun um starfsemi félaga sem tengjast Samherja í Namibíu.

Jóhannes hafði að minnsta kosti 44.028 tölvupósta í pósthólfi sínu milli áranna 2014 og 2016. Hann afhenti Wikileaks 18.497 tölvupósta frá þessu tímabili sem þýðir að hann afhenti aðeins 42% af tölvupóstunum. Flestir þeirra pósta sem Jóhannes afhenti ekki eru frá árinu 2015 en hann virðist ekki hafa afhent Wikileaks neina tölvupósta frá því ári ef undanskildir eru nokkrir póstar frá janúar. Þetta sést glögglega á meðfylgjandi grafi.

Ríkisútvarpið í herferð

Síðustu daga hefur það komið enn skýrar í ljós að Ríkisútvarpið er í herferð gegn Samherja í stað þess að einbeita sér að því að segja fréttir.

Takmarkaður vilji fréttamanna Ríkisútvarpsins til að segja á hlutlausan og yfirvegaðan hátt frá staðreyndum máls kom berlega í ljós aðdraganda Kveiksþáttarins 12. nóvember enda hafnaði Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri, þá ítrekað óskum Samherja um að afhenda Ríkisútvarpinu gögn og upplýsingar um starfsemina í Namibíu. Það er líklega fáheyrt í vestrænum fjölmiðlaheimi að fjölmiðill hafni upplýsingum, frá þeim sem er til umfjöllunar, í aðdraganda þáttar þar sem setja á fram meiðandi staðhæfingar um viðkomandi.

Helgi Seljan mætti svo í morgunútvarpið á Rás 2 hinn 26. nóvember sl. og fullyrti að yfir „þúsund störf“ hefðu tapast í Walvis Bay í namibískum sjávarútvegi vegna Samherja. Engar skýringar fylgdu, enda var um gróf ósannindi að ræða.

Samherji hvorki átti né stýrði Cape Cod FS

Fyrr í þessum mánuði réð Samherji lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að aðstoða við rannsókn á ásökunum sem settar voru fram á hendur fyrirtækinu vegna starfseminnar í Namibíu. Sett var í forgang að yfirfara greiðslur til félagsins Cape Cod FS.

Stundin og Ríkisútvarpið hafa fullyrt að Samherji hafi átt félagið Cape Cod FS og að JPC Shipmanagement, sem veitti félögum Samherja þjónustu, hafi „leppað“ eignarhald á Cape Cod FS fyrir Samherja. Þetta er rangt og ekkert í rannsókn Wikborg Rein bendir til hins gagnstæða. Samherji á ekki og hefur aldrei átt Cape Cod FS og hefur aldrei falið öðrum að „leppa“ eignarhaldið á félaginu.

Cape Cod FS var í eigu JPC Shipmanagement sem þjónustaði félög tengd Samherja um mönnun á skipum í rekstri samstæðunnar. Kaup á þjónustu slíkra félaga er alþekkt í skiparekstri á alþjóðavísu.

Bæði Stundin og Ríkisútvarpið hafa ranglega haldið því fram að um 70 milljónir dollara hafi farið í gegnum Cape Cod FS vegna starfseminnar í Namibíu. Hið rétta er að 28,9 milljónir dollara voru greiddar til félagsins vegna starfseminnar í Namibíu.

Í íslenskum fjölmiðlum hefur verið fullyrt að greiðslurnar í gegnum Cape Cod FS séu óútskýrðar og óeðlilegar. Þetta er alrangt. Í Namibíu eru gjaldeyrishöft við lýði. Til þess að framkvæma greiðslur út úr namibísku hagkerfi þurfa að fylgja margvísleg gögn til að sannreyna greiðsluna vegna haftanna. Af þessari ástæðu þarf að senda upplýsingar um greiðslur til hvers og eins áhafnarmeðlims ásamt afriti af vegabréfi hans til namibísks viðskiptabanka sem áframsendir upplýsingarnar til Seðlabanka Namibíu. Til þess að tryggja að allir áhafnarmeðlimir fengju réttar fjárhæðir greiddar í samræmi við verksamninga voru greiðslurnar yfirfarnar af bæði Cape Cod FS og af starfsmanni félags sem tengdist Samherja áður en þær voru inntar af hendi.

Ítrekuð ósannindi fréttamanns

Helgi Seljan, fréttamaður Ríkisútvarpsins, hefur nú endurtekið rangar fullyrðingar sínar um glötuð störf í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu starfsemi í landinu. Þannig hefur hann endurflutt sömu ósannindi og hann fór með í morgunútvarpi Rásar 2 í gærmorgun og Samherji leiðrétti í gær.
Helgi vitnar í frétt götublaðsins The Namibian Sun þar sem fullyrt er að störf hafi tapast í namibískum sjávarútvegi eftir að fyrirtækið Namsov missti þúsundir tonna af úthlutuðum aflaheimildum vegna breyttra reglna um úthlutun. Fyrst skal áréttað að engin störf glötuðust í namibískum sjávarútvegi eftir breytingar á úthlutun aflaheimilda í hrossamakríl heldur fluttust störfin milli fyrirtækja og skipa. Þá er mikilvægt að halda því til haga að fyrirtækið Namsov var lengst af ekki í eigu Namibíumanna heldur var það í eigu suður-afrísku samsteypunnar Bidvest Group sem er metið á 8,4 milljarða dollara og er númer 1.062 á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir 2.000 stærstu fyrirtæki heims. Þetta eru semsagt störfin sem heimamenn áttu að hafa glatað, störf hjá suður-afrískri alþjóðasamsteypu. Það var ekki fyrr en á árinu 2018 sem Bidvest Group seldi Namsov til namibíska fyrirtækisins Tunacor.

Uppspuni í Ríkisútvarpinu

Í morgun fullyrti Helgi Seljan í morgunútvarpi Rásar 2 að yfir „þúsund störf“ hefðu tapast í Walvis Bay í namibískum sjávarútvegi vegna Samherja. Engar frekari skýringar fylgdu þessari fullyrðingu Helga. Það kemur kannski ekki á óvart því um gróf ósannindi er að ræða.
Namibískur sjávarútvegur er fjölbreyttur og eru margar ólíkar tegundir veiddar við strendur landsins. Félög tengd Samherja hafa einungis tekið þátt í uppsjávarveiðum í namibísku efnahagslögsögunni og er þar aðallega um að ræða veiðar á hestamakríl.
Árið 2011 var úthlutunarreglum breytt á uppsjávartegundum í Namibíu. Ákveðið var að færa um 25% af aflaheimildum í uppsjávarfiski í hendur namibískra félaga og einstaklinga, aðallega frá fyrirtækjum í Suður-Afríku sem höfðu haft heimildirnar. Eftir úthlutun aflaheimilda leituðu ákveðnir aðilar í namibískum sjávarútvegi eftir samstarfi við félag tengt Samherja um veiðar á þeim aflaheimildum sem þeir höfðu yfir á að ráða. Önnur namibísk félög, sem fengu úthlutað aflaheimildum, sömdu við útgerðarfélög frá Kína, Hollandi og Rússlandi.
Alls voru 95% af veiddum afla í uppsjávarfiski fryst úti á sjó. Engin breyting varð á þessu milli áranna 2011 og 2012. Það má því segja að fjöldi starfa í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski í  namibískum sjávarútvegi hafi haldist óbreyttur þótt störfin hafi flust á milli fyrirtækja og skipa eftir að breytingar urðu á úthlutun heimilda. Það er því ljóst að sú fullyrðing að „þúsund störf“ hafi tapast í namibískum sjávarútvegi vegna innkomu félags sem tengist Samherja, er þvættingur. 
Hlutfall Namibíumanna í áhöfnum þeirra skipa sem félög tengd Samherja hafa gert út í namibísku efnahagslögsögunni hefur fjölgað jafnt og þétt og er í dag um 60%. Sem dæmi voru hundrað manns í áhöfn Heinaste. Af þessum hundrað voru að jafnaði fjórir áhafnarmeðlimir með íslenskt ríkisfang en aðrir í áhöfninni frá Namibíu og Austur-Evrópu. 
Að framansögðu virtu er ljóst að Helgi Seljan sagði ósatt í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun og eru ummæli hans eingöngu til þess fallin að valda Samherja tjóni. Ummælin sýna kannski best hversu frjálslega fréttamenn Ríkisútvarpsins fara með staðreyndir.