Opið bréf Garðars Gíslasonar lögmanns Samherja
Misfarið með opinbert vald
Ágæta Katrín
Í fréttatíma Ríkisútvarpsins laugardaginn 10. nóvember síðastliðinn var rætt við þig í tilefni af nýgengnum dómi Hæstaréttar Íslands í máli Seðlabanka Íslands gegn Samherja hf., en með dóminum var endir bundinn á tæplega sjö ára samfelldan málarekstur bankans gegn félaginu. Lést þú þau orð falla í viðtalinu að dómurinn væri „ekki góður fyrir Seðlabankann“ sem tapað hafi málinu „fyrst og fremst vegna formsatriða“. Sú niðurstaða eigi hins vegar að mati þínu ekki að hafa áhrif á stöðu seðlabankastjóra, Más Guðmundssonar, vegna þess að ekki hafi verið sýnt fram á að það hafi verið ásetningur að baki brotum í málarekstri Seðlabanka Íslands gagnvart Samherja hf.
Ég hef sem lögmaður gætt hagsmuna Samherja hf. í fyrrgreindum málarekstri. Ég þekki því málarekstur bankans gagnvart umbjóðanda mínum ágætlega – og sjálfsagt betur en flestir. Búandi að þeirri þekkingu komu fyrrgreind ummæli þín mér verulega á óvart. Það ætti hver sá sem það skoðar af hlutleysi að sjá hversu alvarlegar brotalamir hafa verið á öllum málarekstri Seðlabanka Íslands á hendur Samherja hf., allt frá öndverðu. Málareksturinn snéri raunar ekki aðeins að félaginu Samherja hf., heldur jafnframt að tugum annarra félaga í samstæðu Samherja hf. og það sem verra er, nokkrum einstaklingum líka, sem sæta máttu því af tilefnislausu að vera bornir þungum sökum um refsiverð brot á lögum og kærðir til lögreglu.