Fréttir

Bréf til starfsmanna

Kæru starfsmenn,


Það er okkur sönn ánægja að upplýsa að Seðlabankinn hefur loksins viðurkennt að ekkert var hæft í ásökunum hans á hendur Kaldbaki ehf., dótturfélagi Samherja. Hefur Seðlabankinn því fellt niður málið eftir tæplega 60 mánaða langa rannsókn. Rétt er að geta þess að málið varðaði tvær bankafærslur, þar af var önnur færslan upp á 1.500 norskar krónur (19.700 íslenskar krónur), sjá hér úr bréfi seðlabankastjóra. Öll gögn sem bankinn þurfti í málinu hafði félagið afhent bankanum að beiðni hans. Þau voru ekki haldlögð í húsleitinni. Fyrir þetta kærði Seðlabankinn í tvígang til lögreglu.


Nýr öryggsstjóri Samherja

Jóhann Gunnar Sævarsson hefur verið ráðinn öryggisstjóri Samherja og hefur þegar tekið til starfa.


Jóhann hefur síðustu ár verið rekstrarstjóri Reykfisks á Húsavík.  Í starfi sínu hjá Reykfisk hefur Jóhann sýnt öryggis og vinnuverndarmálum mikinn áhuga og fékk Reykfiskur m.a. viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í vinnuverndarmálum frá Vinnueftirlitinu árið 2012. Jóhann mun fyrst um sinn áfram gegna starfi rekstarstjóra Reyksfisk samhliða starfi sínu sem öryggisstjóri. 


Öryggis- og vinnuverndarmál eru forgangsmál í starfsemi Samherja.  Með ráðningu Jóhanns í starf öryggisstjóra verður framhaldið því mikla og góða starfi sem þegar hefur verið unnið innann fyrirtækisins á þessu sviði.


Rauntölur um laun sjómanna og fiskverð

Umræður að undanförnu um íslenskan sjávarútveg, hverju hann skilar inn í íslenskt þjóðfélag hafa verið miklar. Margir telja að nauðsynlegt sé að slíta í sundur tengsl veiða og vinnslu.  Það sé eina leiðin til að ákvarða laun sjómanna á sanngjarnan hátt.  Hryggjarstykki velgengni Íslendinga byggir á tengingu veiða og vinnslu og markaðssetningar. Þessi tenging hefur verið stór þáttur í þeirri verðmætasköpun sem við höfum náð í sjávarútvegi. Rof á henni myndi færa árangur okkar mörg ár aftur í tímann.


Það er skylda okkar sem nýta auðlindir að hlusta á sjónarmið um nýtingu þeirra. Umræðan verður engu að síður að vera málefnaleg og studd raunverulegum gögnum en ekki óskhyggju og slagorðum.  Krafan um allan fisk á markað er ekki ný og hefur verið uppi milli útgerðar og sjómanna lengi.  Hún snýst fyrst og fremst um kjör sjómanna frá þeirra hlið. Hin hliðin snýst um heildar verðmætasköpun, stöðugleika og mögulega þróun afurða, búnaðar, og starfsöryggi fjölda fiskverkafólks.   


Það er full ástæða til að skoða nánar nokkrar staðreyndir þessu tengdu. Þá er nærtækast fyrir okkur að fara yfir tölur sem tengjast okkar rekstri og launum sjómanna hjá Samherja. Hásetahlutur á árinu 2015 var frá kr. 95 þúsund til 194 þúsund á úthaldsdag, mismunandi eftir því hvaða veiðar voru stundaðar. Laun yfirvélstjóra námu hins vegar frá kr. 148 þúsund til kr. 308 þúsund á dag. 


Fróðleg heimsókn til Útgerðarfélags Akureyringa

Um þessar mundir er verið að sýna áhugaverða þætti úr atvinnulífinu á sjónvarpstöðinni Hringbraut. Samherji hvetur alla áhugasama um sjávarútveg að horfa á þegar þeir Hringbrautarmenn heimsækja Útgerðarfélag Akureyringa og ekki síður á áhugaverða heimsókn þeirra til Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, sem gert er skil í tveimur þáttum. Hægt er að horfa á netinu hér:


 http://www.hringbraut.is/sjonvarp/thaettir/atvinnulifid/kynning-utgerdarfelag-akureyringa/


Þakkir til Aðalsteins Helgasonar

Aðalsteinn Helgason hefur ákveðið að láta af störfum hjá Samherja.  Aðalsteinn hefur verið einn af lykilstarfsmönnum Samherja í á þriðja áratug og mjög náinn samstarfsmaður okkar. Saman höfum við upplifað bjarta daga og farið í gegnum erfiðari tíma án þess að skugga hafi borið á samstarf okkar.  Hann hefur víða komið við í störfum sínum og oft verið falin þau viðfangsefni sem erfiðust voru úrlausnar. Hann stýrði  Strýtu, landvinnslunni á Dalvík, Síldarvinnslunni og hafði umsjón með Afríkuútgerðinni.   Um störf Aðalsteins þarf ekki að fjölyrða; þau eru einstök og hafa haft grundvallarþýðingu fyrir Samherja.


Ljúf framkoma Alla, skap hans og skemmtilegheit, sem hafa glatt okkur öll, gera hann að einstökum félaga. Hans verður saknað af okkur samstarfsmönnunum  og skarðið vandfyllt.


Við þökkum kærlega fyrir samstarfið í gegnum árin.


Þorsteinn Már Baldvinsson
Kristján Vilhelmsson 


Starfslok - Aðalsteinn Helgason


Kæra samstarfsfólk.


Í dag læt ég af störfum hjá Samherja hf.


Ég hef starfað hjá Samherja og tengdum félögum í 24 ár og fengið að takast á við fjölbreytileg og áhugaverð verkefni með afskaplega duglegu og skemmtilegu fólki. Ég minnist þessa  tíma með gleði í hjarta og við Ágústa þökkum ykkur samfylgdina og óskum ykkur alls hins besta í framtíðinni.


Aðalsteinn Helgason



Bréf til starfsmanna

Kæru starfsmenn,


Eins og ykkur er kunnugt um hefur Seðlabanki Íslands staðið fyrir umfangsmikilli rannsókn á starfsemi Samherja í vel á fimmta ár. Framganga bankans frá upphafi hefur öll verið hin grimmilegasta og gengið nærri mörgum okkar enda hefur málið verið rekið áfram af mikilli óbilgirni, hörku og oftar en ekki ósannindum.


Þegar sérstakur saksóknari felldi málið niður fyrir rétt rúmu ári síðan með ítarlegum rökstuðningi töldum við að þessu máli væri lokið enda var sérstakur saksóknari mjög afdráttarlaus í niðurstöðu sinni. Hann staðfesti að öllum gjaldeyri hefði verið skilað vegna sölu á vörum og þjónustu allt frá nóvember 2008 og sá ástæðu til að geta sérstaklega að Samherji hefði gætt þess af kostgæfni. Einnig taldi hann ekkert hæft í ásökunum Seðlabankans um óeðlilegt fiskverð í viðskiptum okkar.


Bréf Samherja hf. til bankaráðs SÍ

Þann 13. júlí sl. barst Samherja sáttarboð Seðlabankans þar sem félaginu var boðið að ljúka því máli sem bankinn hóf 27. mars 2012, með greiðslu sektar upp á 8,5 milljónir íslenskra króna. Samherji hafnaði því boði með ítarlegum rökstuðningi þann 15. ágúst sl. og var bankaráði haldið upplýstu þar um.
Þann 1. september sl. barst Samherja stjórnvaldsákvörðun Seðlabankans þess efnis að bankinn hefði ákveðið að hækka sektina upp í 15 milljónir íslenskra króna. Rétt er að geta þess að fjárhæð ætlaðs brots var á sama tíma lækkuð um rúmlega 1,2 milljónir íslenskra króna. Enginn rökstuðningur fylgdi með þessari hækkun sektarinnar.
Hér með tilkynnist að Samherji hafnar umræddri sekt og mun höfða ógildingarmál vegna framangreinds enda ásakanirnar rangar og framganga bankans frá upphafi öll hin hörmulegasta. 

Afkoma Samherja og dótturfélaga góð árið 2015

Fréttatilkynning frá Samherja hf.


Helstu atriði:



  • Hagnaður Samherja rekstrarárið 2015 var 13,9 milljarðar króna.

  • Samtals greiddi Samherji 4,3 milljarða króna til opinberra aðila á Íslandi vegna reksturs ársins 2015.

  • Tekjuskattur starfsmanna nam að auki 2,2 milljörðum 

  • Rúmur helmingur af starfsemi Samherja samstæðunnar er erlendis.

  • Samherji og dótturfélög eru með rekstur í 12 löndum og samstæðan er gerð upp í átta myntum.

  • Skuldbindingar vegna fjárfestinga sem stofnað var til árið 2015 nema um 30 milljörðum.


Samherji hf. er eignarhaldsfélag um eignarhluti í dóttur- og hlutdeildarfélögum sem flest tengjast sjávarútvegi og vinnslu afurða hér á landi og erlendis. Rekstur útgerðar og fiskvinnslu á Íslandi er að mestu leyti í félögunum Samherji Ísland ehf. og Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og rekstur fiskeldis er í Íslandsbleikju ehf. Starfsemi samstæðunnar er víða um heim, mest á Íslandi og í Evrópu, en einnig í Afríku og Kanada. Samstæðureikningur Samherja er settur fram í evrum. Í tilkynningunni eru fjárhæðir rekstrar umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við meðalgengi ársins 2015 sem var 146,2 krónur á hverja evru.


Samherji ræður nýjan framkvæmdastjóra Fjármála- og upplýsingarsviðs

Kæra samstarfsfólk.


Það er mér mikil ánægja að tilkynna ykkur að Samherji hf. hefur ráðið Jón Rafn Ragnarsson til starfa sem framkvæmdastjóra Fjármála- og upplýsingasviðs Samherja.


Jón er fæddur árið 1979 í Reykjavík. Hann flutti norður ungur að árum, fyrst til Húsavíkur, en síðar til Akureyrar og er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri frá árinu 1999. Útskrifaðist síðan sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands 2003 og varð löggiltur endurskoðandi árið 2006. Jón Rafn hefur starfað hjá Deloitte ehf. síðustu 15 ár og varð meðeigandi frá árinu 2008. Hann hefur samhliða sínum störfum hjá Deloitte verið virkur í félagsstörfum Félags löggiltra endurskoðenda ásamt kennslu í endurskoðun og reikningshaldi hjá Háskólanum í Reykjavík frá árinu 2006. 


Maki Jóns Rafns er Ellen María Sveinbjörnsdóttir, M.sc. viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Ellen María er fædd í Arendal í Noregi árið 1975 og eiga þau saman tvö ung börn, en jafnframt á Jón Rafn tvö börn frá fyrra sambandi. Jón Rafn kemur til með að hefja störf fljótlega og fjölskyldan mun flytjast til Akureyrar í sumar. Jón mun starfa náið með Sigursteini Ingvarssyni fyrst um sinn.


Við bjóðum Jón Rafn velkominn til starfa og fjölskyldu hans hjartanlega velkomna til Akureyrar.


Kveðja,


Þorsteinn Már.