Ágætu starfsmenn Samherja.
• Í mars fékk Seðlabanki Íslands húsleitarheimild hjá Samherja byggða á röngum útreikningum á útflutningsverði karfa.
• Héraðsdómur og Hæstiréttur staðfestu að útreikningarnir væru rangir.
• Nú eru liðnir 9 mánuðir frá því að húsleitin var gerð en fullyrt var í upphafi af hálfu Seðlabankans að rannsóknin myndi taka stuttan tíma.
• Á þessu tímabili hefur einungis ein fyrirspurn komið frá Seðlabanka Íslands varðandi útflutning á fiski. Spurt var um bleikjuútflutning til Þýskalands en á 44 mánaða tímabili hafa einungis verið flutt út 11 tonn af bleikju til tengdra aðila!
• Við höfum ítrekað boðið Seðlabanka Íslands aðstoð við greiningu gagna til að flýta fyrir rannsókninni.
• Seðlabanki Íslands hefur ítrekað haldið því fram fyrir rétti að hann hafi fundið gögn sem sýni að verðlagning Samherja til tengdra aðila, meðal annars á þorski, sé undir markaðsverðum og brjóti þannig gegn lögum.
• Við fengum IFS Ráðgjöf (þjónustu- og ráðgjafarfyrirtæki á sviði fjármála og greininga) til að greina allan fiskútflutning Íslendinga frá 2007 til og með ágúst 2012.
• Niðurstaðan er afdráttarlaus: Verð Samherja var að jafnaði hærra en annarra aðila í greininni (sjá meðfylgjandi bréf frá IFS Ráðgjöf).