Fréttir

Samherji gengur frá kaupum á línuveiðiskipi

Nú í vikunni gekk Samherji frá kaupum á Carisma Star, 52 metra löngu og 11 metra breiðu línuveiðiskipi.

Carisma Star var áður í eigu Carisma Star AS í Måløy Noregi. Skipið var smíðað í Noregi 2001 og fór í gagngera yfirhalningu árið 2008 þar sem vinnsludekkið var meðal annars endurbyggt og vistarverur endurbættar. Skipið er mjög vel með farið og vel útbúið til línuveiða en skipið er með brunn í miðju skipinu, fremst í vélarrúmi þar sem línan er dregin í gegnum en fá skip í heiminum eru þannig útbúin.

Hátíðarkveðja á sjómannadag

Samherji sendir sjómönnum og fjölskyldum þeirra sem og landsmönnum öllum hátíðarkveðjur á sjómannadaginn 2013

Nýtt námskeið fyrir sjómenn

Samherji hefur hleypt af stokkunum námskeiði í sjóvinnu fyrir sjómenn fyrirtækisins

Samherji á sjávarútvegssýningunni í Brussel

Sjávarútvegssýningin i Brussel opnaði í gærmorgun. Samherji tekur þátt í sýningunni með myndarlegum hætti enda er hún afar góður vettvangur til þess að hitta viðskiptavini og samstarfsmenn.

Bréf til starfsmanna - Léttir að loksins er komin hreyfing á málið

Ágætu starfsmenn,
• Rannsókn Seðlabanka Íslands á karfaviðskiptum Samherja hefur verið send embætti Sérstaks saksóknara.
• Lögfræðingur Seðlabanka Íslands hefur tjáð Samherja hf. að bankinn hafi vísað máli því sem hann hefur haft til rannsóknar í 13 mánuði til embættis Sérstaks saksóknara. Það er léttir af þessum tíðindum og vonandi verður þetta til þess að málinu ljúki hið fyrsta.
• Augljóst er af þeim gögnum sem Seðlabanki Íslands hefur lagt fyrir dómstóla að bankinn hefur byggt málið á rangfærslum og vanþekkingu á rekstri Samherja hf. Vonast er til að þeir sem skoða málið hjá embætti Sérstaks saksóknara sýni meiri fagmennsku en yfirmenn og rannsakendur Seðlabanka Íslands hafa gert.
• Samherji hf. vekur athygli á því að á þeim 13 mánuðum sem liðnir eru frá því Seðlabanki Íslands hóf rannsókn á málinu, hefur enginn verið yfirheyrður og ekki hefur verið leitað neinna skýringa á þeim gögnum sem haldlögð voru í upphafi.

Samherji úthlutar 90 milljónum króna til samfélagsverkefna

Samherji hf. boðaði til móttöku í gær í KA-heimilinu á Akureyri og afhenti við það tækifæri styrki til ýmissa samfélagsverkefna upp á 90 milljónir króna. Flestir styrkirnir eru gagngert veittir til að efla barna- og unglingastarf í íþrótta- og æskulýðsfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu en einnig hlutu Öldrunarheimilin á Akureyri og Íþróttasamband fatlaðra/Special Olympics veglega styrki. Þetta er í fimmta sinn frá árinu 2008 sem Samherji afhendir slíka styrki.

Seðlabanki Íslands staðfestir að DFFU er ekki til rannsóknar hjá bankanum

• Seðlabanki Íslands staðfestir í síðbúnu svarbréfi til Deutsche Fischfang Union GmbH & Co. KG (DFFU) dótturfélags Samherja, dagsettu 30. janúar sl., að félagið tengist ekki á nokkurn hátt málum sem bankinn sé með til rannsóknar.
• Í ljósi yfirlýsingar Seðlabanka Íslands krefst DFFU þess að bankinn afhendi félaginu þegar í stað öll skjöl og tölvuskrár er hann hafi undir höndum og varða starfsemi DFFU

Ekkert athugavert við verðlagningu í viðskiptum Samherja við Seagold Ltd.

-samkvæmt úttekt bresku endurskoðunarstofunnar Baker Tilly LLP

• Vegna ásakana Seðlabanka Íslands um undirverðlagningu á sölu afurða Samherja til skyldra aðila lét Seagold Ltd, dótturfélag Samherja í Bretlandi, gera óháða greiningu og úttekt á rekstri fyrirtækisins.
• Sérfræðingar frá endurskoðunarstofunni Baker Tilly í Bretlandi (www.bakertilly.co.uk) voru fengnir til verksins. Um er að ræða eitt af stærri fyrirtækjum heims á sínu sviði en hjá Baker Tilly International starfa um 25.000 manns.
• Afdráttarlaus niðurstaða þessarar úttektar var sú að ekkert væri við þessi viðskipti að athuga, viðskipti Seagold Ltd. við tengda aðila væru eins og um óskylda aðila væri að ræða. Því væri engin þörf á að breyta þar nokkru, hvorki verðlagningu né aðferðum við verðlagningu.
• Samherji hefur áður birt niðurstöður IFS-Greiningar sem eru á sömu lund, ekkert er við verðlagningu á afurðum Samherja að athuga.
• Á því tímabili sem rannsókn Seðlabanka Íslands nær yfir flutti Samherji/Ice Fresh Seafood út afurðir fyrir alls 113 milljarða króna. Af eigin framleiðslu voru seldar afurðir til tengdra aðila fyrir 15,4 milljarða króna en þar af námu viðskipti við Seagold 14,3 milljörðum króna eða um 93%.
• Niðurstaða úttektar Baker Tilly sem og niðurstöður IFS-Greiningar benda eindregið til þess að fullyrðingar Seðlabanka Íslands um undirverðlagningu Samherja til tengdra félaga séu úr lausu lofti gripnar.

Nánar um greiningu útflutningsverða

Vegna fyrirspurnar um greiningu IFS Ráðgjafar á útflutningsverðum á karfa þá fylgir hún hér á eftir og fleira til nánari útskýringar.

Bréf til starfsmanna

Ágætu starfsmenn Samherja.

• Í mars fékk Seðlabanki Íslands húsleitarheimild hjá Samherja byggða á röngum útreikningum á útflutningsverði karfa.

• Héraðsdómur og Hæstiréttur staðfestu að útreikningarnir væru rangir.

• Nú eru liðnir 9 mánuðir frá því að húsleitin var gerð en fullyrt var í upphafi af hálfu Seðlabankans að rannsóknin myndi taka stuttan tíma.

• Á þessu tímabili hefur einungis ein fyrirspurn komið frá Seðlabanka Íslands varðandi útflutning á fiski. Spurt var um bleikjuútflutning til Þýskalands en á 44 mánaða tímabili hafa einungis verið flutt út 11 tonn af bleikju til tengdra aðila!

• Við höfum ítrekað boðið Seðlabanka Íslands aðstoð við greiningu gagna til að flýta fyrir rannsókninni.

• Seðlabanki Íslands hefur ítrekað haldið því fram fyrir rétti að hann hafi fundið gögn sem sýni að verðlagning Samherja til tengdra aðila, meðal annars á þorski, sé undir markaðsverðum og brjóti þannig gegn lögum.

• Við fengum IFS Ráðgjöf (þjónustu- og ráðgjafarfyrirtæki á sviði fjármála og greininga) til að greina allan fiskútflutning Íslendinga frá 2007 til og með ágúst 2012.

• Niðurstaðan er afdráttarlaus: Verð Samherja var að jafnaði hærra en annarra aðila í greininni (sjá meðfylgjandi bréf frá IFS Ráðgjöf).