Kaldbakur EA 1, nýr ísfisktogari Útgerðarfélags Akureyringa, kom til heimahafnar á Akureyri á laugardag en 17 ár eru síðan nýsmíðað skip Samherja Vilhelm Þorsteinsson EA kom til Akureyrar. Fjöldi Akureyringa var á bryggjunni að taka á móti skipinu og var öllum boðið um borð að skoða hið nýja skip.
Kaldbakur var smíðaður í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og er 62 metra langur og 13,5 metra breiður. Skipstjórar verða Sigtryggur Gíslason og Angantýr Arnar Árnason, yfirvélstjóri er Hreinn Skúli Erhardsson en allir koma þeir af gamla Kaldbak sem nú hefur fengið nafnið Sólbakur. Í áhöfn verða um 13-15 manns.
„Kaldbakur er á allan hátt afar vel útbúið skip“ segir Kristján Vilhelmsson, útgerðarstjóri Samherja. „Mesti ávinningurinn af hönnun skipsins að okkar mati er skrokklagið og hve vistvænt skipið er. Skrokklagið er nýstárlegt og eykur sjóhæfni og orkunýtingu. Stefni eins og á þessum nýju skipum hleypir öldunni upp á nefið á stefninu án þess að brjóta hana. Þá er einnig mjög gott sjóstreymi að tiltölulega stórri skrúfu. Í öllu þessu er fólginn orkusparnaður“, segir Kristján Vilhelmsson.
