Fréttir

Endurvinnsla frétta og afbökun staðreynda hjá RÚV

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hyggst í kvöld flytja frétt sem snýr að rekstri útgerðar í Namibíu á vegum félaga sem tengjast Samherja. Með þessari frétt stendur til að endurflytja rúmlega árs gamlar ásakanir. Í fyrirspurn frá fréttastofunni er síðan enn á ný vikið að gögnum sem lögð voru fram í tengslum við kröfu Ríkissaksóknara Namibíu um kyrrsetningu eigna en ítrekað hefur verið fjallað um umrædd gögn í íslenskum og namibískum fjölmiðlum undanfarnar vikur.

Áður óbirtir tölvupóstar afhjúpa samráð Seðlabankans og RÚV í aðdraganda húsleitar

Seðlabanki Íslands hefur afhent Samherja öll tölvupóstsamskipti milli þáverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans og fréttamanns Ríkisútvarpsins í aðdraganda húsleitar hjá Samherja hinn 27. mars 2012. Þennan sama dag var sýndur Kastljósþáttur þar sem settar voru fram alvarlegar ásakanir á hendur Samherja sem enginn fótur reyndist fyrir. Samherji birtir þessa tölvupósta nú í fyrsta sinn.

• Fréttamaðurinn og framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits skiptust á tugum tölvupósta á fimm vikna tímabili fyrir húsleit hjá Samherja.
• Seðlabankinn sagði ósatt fyrir héraðsdómi árið 2015 um að engin samskipti hefðu átt sér stað við við fjölmiðla í aðdraganda húsleitarinnar.
• Heimildarmaður Ríkisútvarpsins dró ásakanir til baka þremur vikum fyrir húsleit og sýningu þáttar Kastljós. Engu að síður settu bæði Seðlabankinn og Ríkisútvarpið fram fullyrðingar um undirverðlagningu.
• Útvarpsstjóri neitaði Samherja um afhendingu tölvupóstanna með vísan til verndar heimildarmanns.
• Seðlabankinn gaf í skyn að umfang ætlaðs brots hlypi á milljörðum en varðaði í reynd 25 milljón króna viðskipti.

Möguleg sekt á DNB er ótengd Samherja

Í dag var greint frá því að norski bankinn DNB gæti átt yfir höfði sér sekt frá norska fjármálaeftirlitinu, Finanstilsynet. Samherji hefur engar upplýsingar um þessa mögulegu sekt umfram það sem lesa má í fjölmiðlum en hún hefur verið bendluð við viðskipti Samherja við DNB. Samt er hvergi minnst á Samherja eða tengd fyrirtæki í tilkynningu DNB varðandi sektina og ekkert bendir til þess að hún sé vegna viðskiptasambands DNB og Samherja.

Samherjar í vetrarstemningu

Starfsmenn Samherja til sjós og lands hafa sýnt einstaka samstöðu og þrautsegju í veirumótbyr ársins. Nú síðustu daga sérstaklega þegar bættist við að vetur konungur minnti á sig. Skipin heldu til hafnar í var en áhafnirnar komust ekki í land vegna sóttvarnarráðstafana. Starfsmenn í landi hafa unnið sínar vaktir bæði á vinnustað og heima og hafa ekki látið Covid-19 eða ófærð stöðva sig.
Hér eru nokkrar stemningsmyndir frá síðustu dögum en skipin héldu til hafs eitt af öðru þegar veður lægði í gærkvöld og í morgun.

Engar lögregluaðgerðir gegn starfsfólki

Namibísk stjórnvöld hafa engar tilraunir gert til að hafa afskipti af núverandi eða fyrrverandi starfsmönnum félaga tengdum Samherja. Hvorki á eigin vegum eða í gegnum samstarf við önnur ríki. Fréttaflutningur um að namibísk stjórnvöld vilji ná tali af nokkrum núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Samherja er því mjög villandi.
Ríkisútvarpið greindi frá því í gær að namibísk löggæsluyfirvöld hefðu reynt um nokkurt skeið að afla upplýsinga um dvalarstað tveggja nafngreindra starfsmanna félaga tengdum Samherja í því skyni að fá þá framselda til Namibíu. Fréttin er byggð á yfirlýsingu namibísks lögreglumanns sem var lögð fram fyrir þarlendan dómstól. Þá voru nokkrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn til viðbótar nafngreindir í fréttinni.

RÚV ruglar saman veltu og ágóða - kyrrsetning Heinaste felld úr gildi

Ríkisútvarpið sneri hugtökum á haus í fréttaflutningi síðustu daga um kyrrsetningu eigna félaga sem tengjast Samherja í Namibíu. Núna hefur kyrrsetning á verðmætustu eigninni, togaranum Heinaste, verið felld úr gildi og togarinn seldur til namibíska útgerðarfyrirtækisins Tunacor Fisheries.
Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því í nánu samráði við namibísk stjórnvöld að leggja niður starfsemi í Namibíu á vegum félaga sem tengjast Samherja. Hluti af þessari vinnu laut að kyrrsetningu togarans Heinaste. Bréf um afléttingu kyrrsetningarinnar var undirritað af ríkissaksóknara Namibíu í gær samhliða sölu skipsins. Aðrar eignir í Namibíu, sem eru óverulegar, sæta enn kyrrsetningu en mál tengd þeim verða leyst á komandi mánuðum í samráði við stjórnvöld.

Um ánægðar áhafnir sem koma heilar heim til fjölskyldu og vina

-Nokkur orð frá skipstjórnendum Samherja vegna umræðu síðustu daga.

Vegna umræðu í fjölmiðlum síðustu daga vilja undirritaðir, skipstjórnarmenn hjá Samherja, koma eftirfarandi á framfæri:
Við viljum byrja á því að taka það skýrt fram að við ætlum ekki að leggja mat á mál skipstjóra Júlíusar Geirmundssonar og áhafnar hans. Það mál – sem er fordæmalaust á fordæmalausum tímum – þarfnast vissulega ítarlegrar skoðunar, því svona nokkuð má aldrei gerast aftur. Málið er í sínum rétta farvegi – í Sjóprófum – og við bíðum niðurstöðu þeirra.

Veiðar og varðveisla á lifandi fiski

Samherji hefur fest kaup á uppsjávarskipi og stendur til að breyta skipinu fyrir bolfiskveiðar þar sem sú nýjung bætist við að hægt verður að dæla fiski um borð og geyma lifandi í sér útbúnum tönkum. Þetta fyrirkomulag býður upp á mun meiri sveigjanleika í meðferð aflans og betri stýringu vinnuálags um borð og í landi.

Seðlabanki Íslands dæmdur til að greiða forstjóra Samherja bætur

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Seðlabanka Íslands til að greiða Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, skaða- og miskabætur fyrir að hafa gert honum sekt vegna brota á gjaldeyrisreglum. Seðlabankinn var hins vegar sýknaður af kröfum Samherja hf. í öðru máli. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um áfrýjun þess dóms til Landsréttar.

Samherji eignast helming hlutafjár í Aquanor Marketing

Samherji hefur gengið frá samningi um kaup á 50% hlut í Aquanor Marketing, Inc. í Boston, sem flytur inn, markaðssetur og selur ferskar sjávarafurðir í hæsta gæðaflokki í Bandaríkjunum.