„Það gefur auga leið að enginn endist í sama starfinu vel yfir þrjá áratugi nema það veiti gleði og fólk hafi gaman af,“ segir Ingibjörg Aradóttir sölufulltrúi hjá Ice Fresh Seafood, sem er félag um sölustarfemi Samherja og annast sömuleiðis sölu afurða annarra framleiðenda.
Hún hefur starfað við sölu á afurðum fyrirtækisins í 34 ár, hóf störf í júlí árið 1990, „á þriðjudegi ef ég man rétt, því hér byrjar enginn á mánudögum,“ segir hún og vísar til þess að hjátrú er gjarnan rík innan sjávarútvegsins. Fyrirtækið hefur tekið stakkaskiptum frá því hún hóf störf, örfáir starfsmenn voru á skrifstofu félagsins á þessum tíma. „Ég held við höfum verið þrjú eða fjögur fyrir utan eigendurna.“
Viðtalið birtist í blaðinu Sóknarfæri og er hér birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra blaðsins.