Mettúr hjá Víðismönnum
09.02.2007
- aflaverðmætið um 160 milljónir króna Víðir EA 910 kom til Akureyrar í dag úr sinni fyrstu veiðiferð á árinu með mesta aflaverðmæti í sögu skipsins. Aflinn er að mestu þorskur en einnig ýsa, ufsi og karfi samtals tæplega 320 tonn af frystum fiski eða um 700 tonn upp úr sjó. Aflanum verður landað á Akureyri og fer hann síðan beint á Bretlandsmarkað. Skipið fór út 3.janúar og er því búið að vera 36 daga í veiðiferðinni þar af 7 sólarhringa á siglingu til og frá miðunum. Skipstjóri í veiðiferðinni var Hjörtur Valsson og með honum voru um borð 25 skipverjar. Þeir voru að veiðum norður í Barentshafi og er veðrið búið að vera gott að mestu að sögn skipverja. "Rólegt og jafnt fiskerí, fiskurinn stór og góður og aðeins bræla í örfáa daga".