Fréttir

Norðanflug hefur hafið starfsemi

Fyrsta flug Norðanflugs var farið í gær, 3. júní, þ.e. á sjómannadaginn, með 11 tonn af ferskum fiski frá Samherja hf. til Belgíu.

Glatt á hjalla hjá sjómönnum Samherja

Sjómenn á skipum Samherja og makar voru boðnir í móttöku á aðalskrifstofu félagsins á Akureyri laugardaginn 2. júní sl. Kristján Vilhelmsson útgerðarstjóri bauð gestina velkomna. Í máli hans kom m.a. fram að í dag fara samskipti að miklu leyti fram í tölvupósti og launagreiðslur eru sendar rafrænt á milli reikninga. Þess vegna ættu starfsmenn sjaldan erindi á skrifstofuna og dæmi væru um að starfsmaður hafi aldrei komið á skrifstofuna þrátt fyrir margra ára starf. Eins og meðfylgjandi myndir bera með sér, var glatt á hjalla og gestirnir nutu veitinga og samveru í nýuppgerðu skrifstofuhúsnæði félagsins.Smelltu hér til að skoða myndir

Neyðaröndunartæki við hverja koju í skipum Samherja hf.

Samherji hf. hefur keypt neyðaröndunartæki sem áformað er að verði sett við hverja koju í skipum fyrirtækisins. Neyðaröndunartækið, eða “flóttatækið” eins og tækið er einnig nefnt, á ensku "Emergency escape breathing device" skammstafað EEBD, er ætlað til að skipverjar geti forðað sér örugglega út úr vistarverum eða öðrum rýmum ef þau fyllast af reyk. Þau eiga ávallt að vera tiltæk í þar til gerðu “statífi” í seilingarfjarlægð frá kojunum. Einnig verða um borð í skipunum æfingagrímur sem ætlast er til að menn noti sem oftast til að kynnast búnaðinum.

Hagnaður Samherja tæpir tveir milljarðar króna

Samherja hf. ársreikningur 2006:Samkvæmt ársreikningi Samherja hf. fyrir árið 2006, sem stjórn félagsins samþykkti á stjórnarfundi sínum í dag, nam hagnaður Samherja 1.915 milljónum króna.  Hagnaður af rekstri félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) nam 5.406 milljónum króna en um 40% af þeirri fjárhæð kemur frá erlendri starfsemi.  Þetta er besti árangur félagsins frá upphafi.

Samherji hf. kaupir Engey RE 1

Samherji hf. hefur í dag keypt, fyrir hönd erlends dótturfélags, Engey RE 1 og verður skipið afhent í Fuglafirði fimmtudaginn 22.mars nk. Skipið verður í framtíðinni gert út erlendis og er liður í að styrkja erlenda starfsemi Samherja hf.

Oddeyrin fer í sína fyrstu veiðiferð

Oddeyrin EA lagði úr höfn á Akureyri á miðvikudag í sína fyrstu veiðiferð í eigu Samherja hf.

Blásið til sóknar

Samherji hyggst byggja fullkomið hátækni fiskvinnsluhús á Dalvík, markvisst er unnið að endurnýjun skipastóls félagsins og skrifstofuhald Samherja er komið undir eitt þak í fyrsta skipti í 20 ár.

Nýtt Samherjaskip bætist í flotann Oddeyrin hin þriðja

Oddeyrin, nýr togari Samherja, kom í fyrsta sinn til heimahafnar sl. sunnudag og er það þriðja skipið í eigu félagsins sem ber nafnið Oddeyrin.

Mettúr hjá Víðismönnum

- aflaverðmætið um 160 milljónir króna Víðir EA 910 kom til Akureyrar í dag úr sinni fyrstu veiðiferð á árinu með mesta aflaverðmæti í sögu skipsins. Aflinn er að mestu þorskur en einnig ýsa, ufsi og karfi samtals tæplega 320 tonn af frystum fiski eða um 700 tonn upp úr sjó. Aflanum verður landað á Akureyri og fer hann síðan beint á Bretlandsmarkað. Skipið fór út 3.janúar og er því búið að vera  36 daga í veiðiferðinni þar af 7 sólarhringa á siglingu til og frá miðunum. Skipstjóri í veiðiferðinni var Hjörtur Valsson og með honum voru um borð 25 skipverjar. Þeir voru að veiðum norður í Barentshafi og er veðrið búið að vera gott að mestu að sögn skipverja. "Rólegt og jafnt fiskerí, fiskurinn stór og góður og aðeins bræla í örfáa daga".

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir 3.300 milljónir króna

Rekstrarhagnaður Samherja hf. fyrir afskriftir nam 3.300 milljónum króna á fyrri helmingi ársins 2006 samanborið við 1.979 milljónir króna framlegð árið áður.