Fréttir

Hlutafé Samherja aukið um rúmar 285 milljónir króna

-Hlutaféð notað til að kaupa hlut KEA í BGB-Snæfelli hf. Hluthafafundur Samherja hf., sem haldinn var síðdegis í gær, samþykkti að auka hlutafé félagsins um 285.315.012 krónur, eða úr 1.374.684.988 krónum í 1.660.000.000 króna. Jafnframt samþykkti fundurinn að núverandi hluthafar féllu frá forkaupsrétti á hinu nýja hlutafé og verður það notað til að kaupa hlut KEA í BGB-Snæfelli hf. en stefnt er að sameiningu þessara tveggja félaga undir nafni Samherja og að sameiningin taki gildi eigi síðar en um næstu áramót.

Innköllun hlutabréfa vegna rafrænnar skráningar

Stjórn Samherja hf., kt. 610297-3079, gerir kunnugt að með heimild í 2. mgr. 27. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, hefur hún tekið ákvörðun um að hlutabréf í félaginu verði tekin til rafrænnar skráningar í kerfi Verðbréfaskráningar Íslands hf. Rafræn skráning tekur gildi mánudaginn 12. febrúar 2001 kl. 9.00 árdegis. Frá þeim tíma ógildast hin áþreifanlegu hlutabréf í félaginu í samræmi við heimild í ákvæði til bráðabirgða nr. II í lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, sbr. 6. gr. laga nr. 32/2000, um breytingar á ýmsum lögum vegna tilkomu rafrænnar eignarskráningar á verðbréfum og reglugerð nr. 397/2000, um rafræna eignarskráningu verðbréfa í verðbréfamiðstöð. 

Veiðar Vilhelms Þorsteinssonar hafa gengið samkvæmt áætlun

Vilhelm Þorsteinsson EA-11 kom til heimahafnar á Akureyri nú um helgina en tæpir tveir mánuðir eru síðan skipið lagði upp í sína fyrstu veiðiferð.  Á þessum tíma hefur skipið verið á kolmunnaveiðum við Færeyjar og suð-vestur af Íslandi og landað í Færeyjum, Grindavík og Neskaupstað.  

Hluthafafundur boðaður 14. nóvember

Samherji hf. boðar til hluthafafundar þriðjudaginn 14. nóvember 2000 kl.18:00. Fundurinn verður haldinn á Hótel KEA, Akureyri. Dagskrá: 1.  Hækkun hlutafjár. 2.  Kosning stjórnar. 3.  Önnur mál, löglega upp borin.Fh. Samherja hf. Þorbjörg H. Ingvadóttir.

Samherji leggur sitt af mörkum vegna afmælis landafunda

Eitt af skipum Samherja hf. Hríseyjan EA 410 var fylgdarskip víkingaskipsins Íslendings alla leið frá Íslandi til New York. Skipin lögðu af stað frá Reykjavík 17. júní og komu eins og kunnugt er til New York þann 5.október við mikla athygli. Lítið hefur farið fyrir fréttum af fylgdarskipinu en tilvera þess í allri ferðinni sem tók tæpa fjóra mánuði var leiðangrinum engu að síður mjög mikilvæg.

Síldarvinnslan og Samherji stærstu eigendur nýs fiskeldisfélags

Nýir eigendur hafa komið að fiskeldisfélaginu AGVA ehf. og gengið í lið með þeim sem áður stóðu að félaginu. Jafnframt hefur hlutafé félagsins verið stóraukið og nafni þess breytt. Hið nýja félag ber nafnið Sæsilfur hf. og nemur hlutafé þess í upphafi 100 milljónum króna. Eigendur eru fjórir, þ.e. Síldarvinnslan hf. og Samherji hf. með 35% hlut hvort félag, Anna Katrín Árnadóttir og Guðmundur Valur Stefánsson með 20% hlut og Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. með 10% hlut. Félagið hyggst hefja sjókvíaeldi í Mjóafirði og er umsókn þess efnis nú til meðferðar í stjórnkerfinu. Framkvæmdastjóri Sæsilfurs er Guðmundur Valur Stefánsson.

Aflaheimildir BGB-Snæfells og Samherja

Neðangreind tafla inniheldur aflaheimildir Samherja hf. og BGB-Snæfells m.v. kvótaárið 2000-2001 fyrir tegundir innan lögsögu.  Í tegundum utan lögsögu er m.v. úthlutun ársins 2000 nema í norsk - íslenskri síld þar er m.v. úthlutun ársins 2001.

Stefnt að sameiningu BGB-Snæfells og Samherja hf. fyrir árslok

Svo sem fram hefur komið hafa Kaupfélag Eyfirðinga svf. og Samherji hf. átt í viðræðum undanfarna daga um skipti á hlutabréfum KEA í BGB-Snæfelli hf. fyrir hlutabréf í Samherja. Þessum viðræðum er nú lokið og hafa félögin tvö náð samkomulagi um öll atriði málsins. Í samkomulaginu felst að stefnt skuli að sameiningu BGB-Snæfells og Samherja og að sameiningin taki gildi eigi síðar en um næstu áramót. Skiptahlutfall í hinu sameinaða félagi verður þannig að núverandi hluthafar BGB-Snæfells munu eignast 26% í því og núverandi hluthafar Samherja hf. 74%. Stærsti einstaki hluthafinn í hinu sameinaða félagi verður KEA með um 17% eignarhlut

Samherji hf. kaupir nótaveiðiskipið Jón Sigurðsson

Samherji hf. hefur gengið frá kaupum á nótaveiðiskipinu Jóni Sigurðssyni af EM Shipping, en félagið er dótturfélag Framherja Spf. í Færeyjum sem Samherji á hlut í. Hið nýja skip fær einkennisstafina GK-110 og verður gert út frá Grindavík.

Starfsfólki Samherja boðið til kvöldverðar í nýja skipinu

Samherji hf. bauð öllum starfsmönnum sínum ásamt mökum til kvöldverðar um borð í Vilhelmi Þorsteinssyni EA-11 s.l. þriðjudagskvöld í tilefni af komu skipsins til Akureyrar. Á meðan á matarboðinu stóð var siglt inn á pollinn og um Eyjafjörðinn í fallegu veðri. Þá gafst viðstöddum gott tækifæri á að skoða hið glæsilega skip.