Fréttir

Afkoman versnað um hálfan milljarð á einum mánuði

Á stjórnarfundi Samherja hf. í gær var kynnt óendurskoðað uppgjör móðurfélagsins fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins. Samkvæmt uppgjörinu nemur tap á rekstri félagsins 252 milljónum króna samanborið við 241 milljónar króna hagnað eftir fyrstu 3 mánuði ársins. Afkoman hefur þannig versnað um tæpan hálfan milljarð á einum mánuði og má rekja breytinguna til lækkunar á gengi íslensku krónunnar og verkfalls sjómanna.Á aðalfundi Samherja í byrjun apríl sl. var greint frá rekstraráætlunum félagsins fyrir árið 2001, sem unnar voru í árslok 2000. Þar kom fram að áætlanir gerðu ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði yrði um 2.175 milljónir króna og hagnaður ársins fyrir skatta yrði um 860 milljónir króna. Ennfremur kom fram að í rekstraráætluninni væri gert ráð fyrir að gengi íslensku krónunnar yrði óbreytt á árinu og að ekki kæmi til verkfalls sjómanna. Nú er ljóst að gengi íslensku krónunnar hefur fallið um 16% frá áramótum og að skip félagsins hafa verið frá veiðum vegna sjómannaverkfalls í 50 daga á árinu, þar með talinn allur aprílmánuður. Því er ljóst að félagið verður rekið með verulegu tapi á fyrri hluta árs 2001. Á móti kemur að fari verðlagsþróun ekki úr böndum má ætla að afkoma félagsins batni á næstu misserum vegna þeirrar hækkunar sem orðið hefur á erlendum gjaldmiðlum. Engu að síður er ljóst að heildarafkoma ársins verður mun lakari en kynnt var á aðalfundi félagsins. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) verður hins vegar að öllum líkindum ekki langt frá því sem áætlað var. Nettóskuldir félagsins um síðustu áramót voru um 6 milljarðar króna og þann 30. apríl sl. námu þær 6,4 milljörðum króna. Miðað við þær gengisbreytingar sem orðið hafa má gera ráð fyrir að velta móðurfélagsins á ársgrundvelli verði tæpir 11 milljarðar króna. Það er því ljóst að hlutfall skulda miðað við veltu er tiltölulega hagstætt hjá Samherja. Fréttatilkynning frá Samherja hf. miðvikudaginn 6. júní 2001. Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.

Rekstraráætlun móðurfélagsins fyrir árið 2001 kynnt

Á aðafundi Samherja hf. sem haldinn var í dag kynnti Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, rekstraráætlun móðurfélagsins fyrir árið 2001. Félagið hefur ekki áður birt slíka áætlun en hún byggir á ákveðnum forsendum sem Þorsteinn Már fór yfir á fundinum. Vinna við rekstraráætlunina fór fram í lok síðasta árs. Hún byggir á úthlutun aflaheimilda eins og þær voru fyrir fiskveiðiárið 2000-2001 og að þær aflaheimildir verði óbreyttar fyrir fiskveiðiárið 2001-2002. Ekki er gert ráð fyrir gengisbreytingum á árinu né áhrifum verkfalls sjómanna. Áætlun er gerð fyrir hverja deild félagsins og þeim sett framleiðslu- og hagnaðarmarkmið. Í hráefnisáætlunum er gert ráð fyrir að taka á móti 110.000 tonnum í fiskimjölsverksmiðju félagsins í Grindavík. Á Dalvík er gert ráð fyrir að vinna úr tæpum 7.000 tonnum af þorski og ýsu og í rækjuverksmiðju félagsins á Akureyri um 8.000 tonnum. Áætlanirnar gera ráð fyrir að skip félagsins nýti úthlutaðar aflaheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári. Þá er gert ráð fyrir að markaðir verði stöðugir og afurðaverð haldist áfram gott. Tekjur áætlaðar rúmir 9 milljarðar króna Tekjur ársins eru áætlaðar 9.250 milljónir króna, rekstrargjöld 7.075 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði 2.175 milljónir. Gert er ráð fyrir að afskriftir verði 1.000 milljónir króna og hreinar fjármunatekjur og fjármagnsgjöld eru áætluð 330 milljónir. Hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi móðurfélagsins árið 2001er því áætlaður 860 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er áætlað 1.700 milljónir. Náist þessi rekstarniðurstaða gæfi það að sögn Þorsteins Más tilefni til að fyrirtækið gæti greitt að minnsta kosti 20% arð til hluthafa á næsta ári. Hann sagði ljóst að endurskoða þurfi áætlunina með tilliti til gengisbreytinga sem hafa orðið frá áramótum og áhrifa verkfalls og verður það gert að verkfalli loknu. Bráðabirgðatölur fyrir fyrstu 3 mánuði ársins Á fundinum kynnti Þorsteinn einnig bráðabirgðatölur fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins. Þær sýna hagnað af rekstri móðurfélags Samherja, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, upp á rúmar 800 milljónir króna. Í áætlunum Samherja fyrir sama tímabil er gert ráð fyrir rúmlega 700 milljóna króna hagnaði. Þorsteinn Már kvaðst ánægður með þennan árangur Sanherja á þremur fyrstu mánuðum ársins. Eykur hlutdeild í fiskeldi Samherji hf. hefur með kaupsamningi við Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. keypt 45,3% hlut félagsins í Siflurstjörnunni hf. auk 10% hlut HÞ í Sæsilfri hf. Heildarkaupverð þessara eignarhluta er ríflega 128 milljónir króna. Eftir kaupin á Samherji hf. 48,45% eignarhlut í Silfurstjörnunni og 45% hlut í Sæsilfri hf. Að sögn Þorsteins Más hefur Samherji hf. verið að hasla sér völl í fiskeldi að undanförnu og eru kaup þessi liður í því að styrkja stöðu félagsins á þeim vettvangi. Fréttatilkynning frá Samherja hf. þriðjudaginn 10. apríl 2001.  Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson í síma 460 9000.

Aðalfundur Samherja hf. 2001

Aðalfundur Samherja hf. verður haldinn þriðjudaginn 10. apríl 2001 í Nýja Bíói á Akureyri og hefst kl. 14:00. Dagskrá: 1. Venjuleg aðalfundarstörf skv. grein 4.04 í samþykktum félagsins 2. Tillaga um heimild félagsstjórnar til kaupa á eigin hlutum skv. 55. gr. laga nr. 2/1995 3. Önnu mál löglega upp borin Tillögur frá hluthöfum, sem bera á fram á aðalfundi, skulu vera komnar skriflega í hendur stjórnar eigi síðar en sjö dögum fyrir aðalfund. Dagskrá, endanlegar tillögur og reikningar félagsins fyrir árið 2000 munu liggja frammi á skrifstofu félagsins, hluthöfum til sýnis, sjö dögum fyrir aðalfund. Fundargögn verða afhent á fundarstað. Athygli er vakin á því að ársskýrslu félagsins verður hægt að hlaða niður af heimasíðu fyrirtækisins á PDF formi (Acrobat Reader) frá og með þriðjudeginum 10. apríl.

Afkoma Samherja hf. á árinu 2000:

Hagnaður ársins nam 726 milljónum króna -Veltufé frá rekstri jókst um rúm 20% og var 1.060 milljónir króna Samherji hf. var rekinn með 726 milljóna króna hagnaði á nýliðnu ári, samanborið við 200 milljóna króna hagnað árið 1999. Veltufé frá rekstri félagsins jókst um rúm 20% frá árinu áður og nam 1.060 milljónum króna. Töluverðar breytingar urðu á rekstri félagsins á árinu og ber þar hæst að 65% hlutafjár í Samherja GmbH, sem áður var dótturfélag Samherja hf., voru seld síðla árs og er það félag því ekki í samstæðuuppgjöri Samherja hf. nú. Þá eignaðist Samherji meirihluta í BGB-Snæfelli hf. í lok nýliðins árs. Vegna þessa er framsetning ársreiknings Samherja talsvert breytt frá árinu 1999. Rekstrartekjur samstæðunnar voru 7.011 milljónir króna á árinu og rekstrargjöld námu 5.599 milljónum. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.412 milljónum króna, samanborið 1.267 milljónir árið áður, sem er 11% aukning á milli ára. Afskriftir voru 643 milljónir króna á móti 883 milljónum árið áður. Liðirnir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld voru 351 milljón króna til tekna á árinu en 292 milljónir til gjalda árið áður. Hagnaður af sölu eigna í hlutdeildarfélögum var 975 milljónir á árinu. Þar vegur þyngst sala á 65% hlut í Samherja GmbH í Þýskalandi og sala á 40% hlut í Skagstrendingi hf. Félagið komst tiltölulega vel frá þeim miklu breytingum sem áttu sér stað á gengi gjaldmiðla á árinu. Þannig var gengistap 253 milljónir króna en árið 1999 var gengistapið 188 milljónir. Áhrif hlutdeildarfélaga voru neikvæð (nettó) um 168 milljónir króna en voru jákvæð um 15 milljónir árið áður. Hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir tekjuskatt nam 1.119 milljónum króna, samanborið við 92 milljónir árið 1999. Tekjuskattur var 375 milljónir króna og hagnaður ársins því 726 milljónir, sem fyrr segir. Breytt framsetning ársreiknings Sem fyrr segir er framsetning ársreikingsins nokkuð breytt frá fyrra ári. Munar þar mestu að á árinu seldi félagið 65% hlut í Samherja GmbH, sem hverfur þar með úr samstæðuuppgjöri félagsins. Þá lagði Samherji hf. 35% eignarhluta sinn í Samherja GmbH inn í eignarhaldsfélagið FAB GmbH, sem nú er móðurfélag Samherja GmbH og Hussmann & Hahn GmbH. Í nóvember eignaðist Samherji rúmlega 40% hlut KEA í BGB-Snæfelli hf. með hlutabréfaskiptum við KEA. Í lok árs var Kaldbaki hf. síðan skipt upp, en það félag átti tæplega 35% hlut í BGB-Snæfelli. Eftir þau skipti átti Samherji um 80% hlutafjár í BGB-Snæfelli. Í framhaldi af þessum viðskiptum var samruni Samherja og BGB-Snæfells ákveðinn og miðaðist hann við 30. desember sl. og var samrunaáætlun birt í byrjun yfirstandandi árs. Efnahagsreikningur Samherja í árslok 2000 er jafnframt stofnefnahagsreikningur hins sameinaða félags. Efnahagur Eignir samstæðunnar í árslok 2000 námu 16.593 milljónum króna. Eigið fé nam 5.405 milljónum króna, sem er tæplega 750 milljóna króna hækkun á milli ára. Þess ber að geta að auk hagnaðar hefur sameining BGB-Snæfells við félagið áhrif á eiginfjárstöðuna. Sama gildir um kaup félagsins á eigin bréfum fyrir rúman milljarð, sem notuð eru í skiptum fyrir bréf í BGB-Snæfelli. Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 7.604 milljónir króna og skammtímaskuldir 3.584 milljónir. Veltufjármunir í árslok voru 4.914 milljónir króna. Veltufé frá rekstri samstæðu nam sem fyrr segir 1.060 milljónum króna, samanborið við 881 milljón árið áður. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 32,6% og veltufjárhlutfallið 1,37. Veltufé frá rekstri móðurfélags nam 1.114 milljónum króna, eiginfjárhlutfallið var 33,0% og veltufjárhlutfallið 1,46. Ár mikilla breytinga "Nýliðið ár var erfitt að mörgu leyti en ég er hins vegar ágætlega sáttur við niðurstöðuna," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. "Þetta var ár mikilla breytinga hjá Samherja. Þar ber vitanlega hæst þegar Vilhelm Þorsteinsson EA bættist í flota félagsins. Koma skipsins gerir okkur kleift að auka verulega verðmæti uppsjávarafurða með fullvinnslu á kolmunna og síld um borð. Yfirstandandi ár verður ákveðinn prófsteinn á þetta verkefni." Hann segir að sú öfluga landvinnsla, sem félagið eignaðist með samrunanum við BGB-Snæfell, sé annað verkefni sem miklar vonir séu bundnar við. "Ég hef þá trú að samruni félaganna tveggja skjóti styrkum stoðum undir vinnsluna á Dalvík og efli jafnframt rekstur félagsins í heild sinni." Stóraukin þátttaka í fiskeldi Fjárfestingar Samherja í fiskeldi á nýliðnu ári námu tæpum 390 milljónum króna. Um það segir Þorsteinn Már: "Ef við Íslendingar ætlum að vera áfram í forystu í alþjóðlegum sjávarútvegi verðum við að vera virkir þátttakendur í fiskeldi. Samherji hefur að mínum dómi sýnt gott fordæmi með því að auka til muna þátttöku sína í þessari grein sjávarútvegs á síðustu misserum og við höfum fullan hug á að leggja enn meiri rækt við þennan þátt í náinni framtíð. Þekking í fiskeldi hefur aukist mikið síðustu ár, sem leitt hefur til hagkvæmari framleiðslutækni og gert greinina að áhugaverðum fjárfestingarkosti. Það er von mín að íslensk stjórnvöld skapi þessari grein þau skilyrði sem hún þarf til þess að vera samkeppnishæf á alþjóðavettvangi," segir hann. Bjartsýnn á horfurnar á yfirstandandi ári "Það bendir margt til þess að yfirstandandi ár verði gott ár fyrir Samherja og sjávarútveginn almennt en meginþættir úr rekstraráætlun Samherja verða kynntir á aðalfundi félagsins. Því er hins vegar ekki að neita að það eru blikur á lofti og á ég þá sérstaklega við það ástand sem mun skapast í atvinnugreininni ef ekki tekst að semja við sjómenn. Ég vona auðvitað í lengstu lög að til verkfalls komi ekki og þar til annað kemur í ljós er ég bjartsýnn á horfurnar á yfirstandandi ári. Þá höfum við mjög öflugan og samstæðan hóp starfsfólks sem alltaf hefur unnið fórnfúst starf. Á því er engan bilbug að finna og í því felst mikill styrkur," segir Þorsteinn Már Baldvinsson. Aðalfundur 10. apríl nk. Aðalfundur Samherja hf. verður haldinn í Nýja bíói á Akureyri þriðjudaginn 10. apríl nk. og hefst hann kl. 14:00. Stjórn félagsins gerir tillögu um að greiddur verði 15% arður til hluthafa vegna nýliðins árs. Samþykki aðalfundurinn tillöguna verða viðskipti með bréf félagsins án arðs frá og með 11. apríl 2001 en hluthafar í lok dags 10. apríl fá greiddan arð þann 10. maí nk. Meðfylgjandi lykiltölur úr rekstri Samherja hf., móðurfélags og samstæðu, á árinu 2000 má finna á síðunni Lykiltölur úr rekstri.  Til samanburðar eru lykiltölur fyrir árið 1999. Fréttatilkynning frá Samherja hf. fimmtudaginn 8. mars 2001.   Nánari upplýsingar veitir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri, í síma 460 9000.

Af loðnumiðunum

Stefán Pétur Hauksson vélstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA-11 tók þessa mynd á loðnumiðunum í gær suð- vestur af Snæfellsnesi.  Á myndinni má sjá samvinnu skipstjóra á loðnuskipum Samherja í verki.  Þarna er Seley SU-210 búin að fylla og afgangnum úr nótinni dælt um borð í Þorstein EA-810. 

Samherji eignast 50% hlut í Snæfugli ehf

Samherji hf. hefur eignast 50 % hlut í Snæfugli ehf. sem á öll hlutabréf í Skipakletti hf. á Reyðarfirði. Stjórnir Skipakletts hf. og Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupsstað hafa undirritað áætlun um samruna félaganna og hefur verið send út fréttatilkynning vegna þessa. Samruninn miðast við 1. mars næstkomandi og mun hlutdeild hluthafa Skipakletts hf. verða 20% í hinu sameinaða félagi. Fréttatilkynning frá Samherja hf. mánudaginn 5. febrúar 2001.   Nánari upplýsingar gefur Þorsteinn Már Baldvinsson í síma 460-9000

Þorsteinn EA-810 kemur heim eftir viðamiklar endurbætur í Póllandi

Átján metra lenging og burðargetan eykst um 75% Þorsteinn EA er fjölnota fiskveiðiskip sem er jafnvígt til botn- og flottrollsveiða og veiða með hringnót. Skipið er nú útbúið til veiða með tveimur botntrollum samtímis eftir að þriðju togvindunni var bætt við. Frystigeta skipsins var tvöfölduð svo og rafmagnsframleiðslan. Skipið er án efa orðið eitt af öflugust fiskiskipum Íslendinga. Öll vinnuaðstaða hefur batnað og meira afthafnarpláss fyrir mismunandi veiðarfæri. Ekki fengust að svo stöddu upplýsingar um kostnaðinn við endurbæturnar á skipinu.

Þorsteinn EA810 kominn heim

Þorsteinn EA-810 lagðist að bryggju á Akureyri nú síðdegis, en eins og mörgum er kunnugt hefur skipið gengist undir miklar breytingar í Póllandi undanfarna mánuði.   Þorsteinn EA var m.a. lengdur um 18 metra og stýrishús skipsins jafnframt fært fram um 11 metra.  Þessar myndir voru teknar fyrir stundu við komuna til Akureyrar:

Breytingar á skipastól Samherja

Samherji hf. hefur nýtt sér rétt, samkvæmt kaupsamningi sem gerður var við færeyska útgerðarfélagið E.M. Shipping, um að láta kaup félagsins á nótaveiðiskipinu Jóni Sigurðssyni ganga til baka. Það er gert samhliða því að félagið hefur ákveðið að hætta við að selja fjölveiðiskipið Þorstein EA-810 til þýska útgerðarfélagsins DFFU. Sú ákvörðun var tekin samhliða þeim breytingum sem urðu á rekstri og eignaraðild þýska félagsins fyrir skemmstu.Þorsteinn EA-810 hefur verið í lengingu í Póllandi að undanförnu en er væntanlegur hingað til lands í lok janúar.

Samherji hf. selur 65% hlut í Samherja GmbH í Þýskalandi

Á fundi stjórnar Samherja hf. í dag, fimmtudaginn 14. desember, var samþykkt að selja 65% eignarhlut í dótturfyrirtæki félagsins í Þýskalandi, Samherja GmbH, sem á og rekur útgerðarfyrirtækið DFFU í Cuxhaven. Heildarsöluverð nemur 864 milljónum króna. Samhliða sölunni mun Samherji GmbH endurgreiða móðurfélaginu vaxtalaust hluthafalán að upphæð 1.140 milljónir króna. Samtals nema þessar greiðslur um tveimur milljörðum króna og verður helmingur þeirrar fjárhæðar nýttur til kaupa á eigin hlutabréfum í Samherja í tengslum við fyrirhugaða sameiningu við BGB-Snæfell hf.