Baldvin Þorsteinsson EA-10 kemur til heimahafnar á Akureyri í kvöld
13.12.2002
Þriðja fjölveiðiskipið í flota Samherja hf:Baldvin Þorsteinsson EA 10, fjölveiðiskip Samherja hf., leggst kl. 21 í kvöld að Tangabryggjunni á Akureyri eftir fimm sólarhringa siglingu frá Riga í Lettlandi þar sem skipið var lengt og gerðar á því ýmsar aðrar breytingar í skipasmíðastöðinni Riga Shipyard. Eftir þessar breytingar er Baldvin Þorsteinsson öflugt fjölveiðiskip fyrir veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski og rækju. Skipið hefur m.a. verið lengt um 17,6 metra og er mesta lengd þess nú 85,85 metrar. Mesta breidd skipsins er 14 metrar og brúttótonnin eru 2968.