Þýski togarinn Wiesbaden NC, kom inn til hafnar í Reykjavík föstudaginn 9.júlí s.l. með rúm 600 tonn af úthafskarfa, eftir 39 daga veiðiferð. Afurðirnar fara að mestu á markaði í Japan. Skipið var á veiðum á Reykjaneshrygg, utan íslenskrar lögsögu. Að sögn Haraldar Grétarssonar framkvæmdastjóra DFFU var skipstjórinn Flosi Arnórsson í sinni annarri veiðiferð á flottrolli en fyrstu veiðiferð sem skipstjóri og verður þetta að teljast góður árangur hjá hinum nýja skipstjóra. Í áhöfn eru 33 menn, að mestum hluta pólverjar.Wiesbaden er gerður út af Atlantex, pólsku dótturfyrirtæki DFFU sem er hlutdeildarfélag Samherja hf. og siglir togarinn því undir pólsku flaggi.